Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, er kinnbeinsbrotinn en þetta staðfesti hann í samtali við vefmiðilinn 433.is í gærkvöldi. Ragnar Bragi lenti í samstuði við Daníel Laxdal, varnarmann Stjörnunnar, í 2:1-tapi Fylkis gegn Stjörnunni í 1. umferð úrvalsdeildar karla, Pepsi Max-deildarinnar, á Samsung-vellinum í Garðabæ í gær.
Atvikið átti sér stað í fyrri hálfleik og þurfti leikmaðurinn að fara af velli á 43. mínútu vegna þessa. Ragnar Bragi staðfesti í samtali við 433.is í gær að hann yrði frá næstu fjórar til átta vikurnar vegna meiðslanna en hann mun gangast undir aðgerð í dag og það ætti svo að skýrsat í vikunni hversu langan tíma hann mun þurfa til þess að ná sér.
Ragnar Bragi var gerður að fyrirliði Fylkis fyrir tímabilið en hann er 25 ára gamall. Hann hefur alla tíð spilað sem sóknarmaður en þjálfarar Fylkis, þeir Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Ingi Stígsson, ákváðu að spila honum sem bakverði í sumar og hafa því þjálfað hann og æft í þeirri stöðu í allan vetur. Hann á að baki 97 leiki í efstu deild með Fylki og Víkingi þar sem hann hefur skorað sjö mörk.