Aðstoðarþjálfari Fylkis húðskammar Rúnar Pál

Ólafur Ingi Skúlason fékk að líta rauða spjaldið í leik …
Ólafur Ingi Skúlason fékk að líta rauða spjaldið í leik Stjörnunnar og Fylkis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Ingi Skúlason, spilandi aðstoðarþjálfari Fylkis í efstu deild karla í knattspyrnu, fékk að líta rauða spjaldið í leik Stjörnunnar og Fylkis í 1. umferð úrvalsdeildarinnar, Pepsi Max-deildarinnar á Samsung-vellinum í Garðabæ um síðustu helgi. 

Ólafur Ingi kom inn á sem varamaður á 74. mínútu fyrir Valdimar Þór Ingimundarson en Ólafur entist aðeins fjórtán mínútur á vellinum og fékk beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á Alex Þór Hauksson, fyrirliða Garðbæinga.

Eftir leik mætti Rúnar Páll Sigmundsson, annar þjálfari Garðbæinga, í viðtal við Pepsi Max-stúkuna sem er á dagskrá Stöð2Sport og gagnrýndi Ólaf Inga harðlega. „Þetta var bara árás og hrikalega gróft,“ sagði Rúnar Páll í þættinum. „Mig minnir að hann hafi fengið samskonar spjald gegn okkur í vor eða vetur. Þá tók hann einn og straujaði hann. Þetta er alveg galið, gjörsamlega galið, að svona reyndur maður skuli gera svona. Hann hefði getað stórslasað Alex,“ bætti Rúnar við.

Ólafur Ingi hefur nú svarað fyrir sig en hann birti áhugaverða færslu á samfélagsmiðlinum Twitter í dag. „Er ekki vanur að tjá mig mikið á samfélagsmiðlum en nenni ekki að segja ekki neitt núna,“ sagði Ólafur Ingi á Twitter. „Hræsnin í þessu öllu saman, ég viðurkenni það fúslega að tækling mín gegn Stjörnunni var slök ef ekki arfaslök. Ég var alltof seinn og uppskar réttilega rautt spjald fyrir.

Ég brást liðsfélögum og félagi mínu illa. Þó ég geti tæplega gert þær kröfur til Rúnars Páls þá reikna ég fastlega með því að meðalgreindir knattspyrnuáhugamenn átti sig á því að það var ekki ætlun mín að koma inn á völlinn til þess að slasa andstæðing og skilja liðsfélagana eftir manni færri. Þetta var einfaldlega illa tímasett og léleg tækling! Líklega ein af ótal mörgum sem koma til með að sjást á völlum landsins í sumar. Rúnar Páll fór mikinn eftir leik og fullyrti að þetta hafi verið árás af minni hálfu.“

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Með krónískt hæsi eftir garg á dómara

„Hann hefur sennilega aldrei upplifað það að einn af hans leikmönnum tímasetji tæklingu illa og uppskeri rautt spjald. Velti því fyrir mér hvort Rúnar Páll, sem er með krónískt hæsi eftir að hafa gargað samfleytt á íslenska dómara í sex ár, sé best fallinn til þess að taka sér hlutverk siðapostula…Velti líka fyrir mér hvernig framganga Daníels Laxdal horfir við honum. Daníel henti sér óheppilega í glórulaust einvígi gegn Ragnari Braga sem lá eftir tvíkinnbeinsbrotinn og verður frá í um 6 vikur.

Við Fylkismenn reyndum ekki að búa til histeríu í kringum návígi Daníels og Ragnars þó það sæju allir á vellinum að Daníel ætti aldrei möguleika á að ná boltanum og að afrakstur framgöngu hans hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það hvarflar ekki að okkur á að ásaka Daníel um árás. Við getum gagnrýnt hann fyrir háskalegan leik og að fara í einvígi til þess eins að láta finna hraustlega fyrir sér - en árás tæplega. Fótbolti er líkamleg íþrótt, menn takast hressilega á, tækla og lenda í tæklingum.

Það er ekki að fara að breytast og á meðan munum við sjá misheppnaðar tæklingar. Þá taka dómararnir í stjórnartaumana og beita sínum valdheimildum til þess að leikurinn fari fram innan ramma knattspyrnulaganna. Niðurstaða Guðmundar Ársæls og aðstoðarmanna í tengslum við mína tæklingu var rétt – þó ég frábiðji mér ásakanir Rúnars um árás. Niður af þínum háa hesti kæri Rúnar og líttu þér nær. Rant over,“ bætti Ólafur Ingi við.

Atvikið umdeilda sem varð til þess að Ragnar Bragi tví …
Atvikið umdeilda sem varð til þess að Ragnar Bragi tví kinnbeinsbrotnaði. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert