„Þetta var krefjandi“

Elín Metta Jensen og Hlín Eiríksdóttir fagna marki.
Elín Metta Jensen og Hlín Eiríksdóttir fagna marki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að við megum alveg búast við því að deildin verði svona í sumar, jöfn og spennandi,“ segir Elín Metta Jensen, leikmaður Vals, eftir sigur 2:1 sigur Valskvenna á nýliðum Þróttar á Eimskipsvellinum í kvöld. 

Nýliðarn­ir stóðu vel í meist­ur­un­um en staðan var 0:0 fyrstu 60 mín­út­urn­ar. Þá skoraði Elín Metta fyr­ir Val og varamaður­inn Diljá Ýr Zomers bætti við marki átta mín­út­um síðar, ný­kom­in inná sem varamaður. Linda Líf Boama minnkaði mun­inn fyr­ir  Þrótt með marki á 78. mín­útu.

Valskonur byrjuðu leikinn að krafti fyrstu mínúturnar en Þróttarar sóttu í sig veðrið og voru betri aðilinn í fyrri hálfleik. Valskonur mætti sterkt í síðari hálfleik og var betri framan af. 

„Mér fannst frammistaðan fín. Við bættum okkur í seinni hálfleik, byrjuðum ekki nógu vel. En svo vorum við flottar í seinni hálfleik. Þetta er erfiður völlur að koma á svo þetta var krefjandi. Það hefði verið fínt að halda hreinu en við sigldum þessum þremur stigum,“ segir Elín. 

Aðspurð hvort að hún hafi áhyggjur af sumrinu eftir leik kvöldsins segir Elín, sem hefur skorað 3 mörk í fyrstu tveimur leikjunum, svo ekki vera. 

„Mér fannst við sýna góðan karakter með því að vera þolinmóðar. Ég held að við megum alveg búast við því að deildin verði svona í sumar, jöfn og spennandi. En ég hef ekki sérstakar áhyggjur yfir sumrinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert