Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis í efstu deild karla í knattspyrnu, tvíkinnbeinsbrotnaði í leik Stjörnunnar og Fylkis í 1. umferð deildarinnar á Samsung-vellinum í Garðabæ um síðustu helgi. Leiknum lauk með 2:1-sigri Stjörnunnar en það var hinn 16 ára gamli Ísak Andri Sigurgeirsson sem skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma.
Ragnar Bragi lenti í samstuði við Daníel Laxdal, varnarmann Stjörnunnar, í fyrri háfleik og þurfti að yfirgefa Garðabæinn í sjúkrabíl vegna atviksins. Hann verður frá næstu fjórar til átta vikurnar vegna meiðslanna en Ragnar, sem er 25 ára gamall, var gerður að fyrirliða Fylkis fyrir tímabilið.
„Þeir eru að tala um að ég verði frá í fimm eða sex vikur, það fer allt eftir því hvernig þetta grær,“ sagði Ragnar Bragi í samtali við vefmiðilinn 433.is. „Þetta er ógeðslega fúlt, maður er búinn að harka í allan vetur og var spenntur fyrir nýju hlutverki og nýrri stöðu á vellinum. Þetta eru bara sex vikur og bara áfram gakk.
Ég er búinn að vera hálf sofandi bara, ég er mikið verkjaður. Ég hef ekki lent í svona meiðslum áður, ég á að hvíla mig eins og ég get. Ég hef ekkert verið í vinnu, ég er með verkjalyf til að stilla mig af,“ bætti Ragnar við í samtali við 433.is en hann undrar sig á því af hverju Daníel fékk ekki einu sinni áminningu fyrir brotið.
„Þegar ég lendi í þessu samstuði þá hugsaði ég ekkert meira út í það, ég sá þetta ekki aftur fyrr en daginn eftir. Ég man eftir öllu, þegar ég sá þetta morguninn eftir og svo rauða spjaldið á Óla þá fer maður að hugsa. Ég velti því fyrir mér ef ég hefði verið að sparka í boltann og Daníel hefði komið svona seint inn í mig, þá hefði kannski eitthvað verið gert. Ég er ekki að segja að Daníel Laxdal hafi verið að reyna þetta en hann var of seinn í návígið, fastur fyrir. Það hefði nú alveg mátt taka þessu,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson í samtali við 433.is.