Valgeir Valgeirsson, sóknarmaður HK í efstu deild karla í knattspyrnu, meiddist á öxl í leik KR og HK í 2. umferð Pepsi Max-deildar karla á Meistaravöllum í Vesturbæ um helgina. Leiknum lauk með 3:0-sigri HK en Valgeir var frábær í leiknum gegn Íslandsmeisturunum, skoraði eitt mark, ásamt því að leggja upp annað mark fyrir Birki Val Jónsson.
Valgeir meiddist hins vegar á 74. mínútu eftir samstuð og þurfti að fara af velli. Hann fór í myndatöku í gær og reiknar með því að vera frá í tvær vikur. „Það kom ekkert alvarlegt úr út myndatökunni sem ég fór í,“ sagði Valgeir í samtali við mbl.is í dag. „Þetta er að öllum líkindum bara tognun í öxlinni sem er jákvætt.
Læknarnir tjáðu mér að ef allt gengur að óskum í endurhæfingunni þá verði ég frá í sirka tvær vikur og það er það sem ég er að miða við eins og staðan er í dag,“ bætti Valgeir við. Þetta er áfall fyrir HK en Valgeir, sem er einungis sautján ára gamall, hefur byrjað tímabilið frábæralega og skorað tvö mörk í tveimur leikjum í Pepsi Max-deildinni.
Þetta þýðir jafnframt að leikmaðurinn verður fjarri góðu gamni þegar HK mætir Magna í 3. umferð bikarkeppninnar á miðvikudaginn kemur. Þá verður hann einnig á meiðslalistanum þegar HK fær Val í heimsókn í úrvalsdeildinni, 28. júní, og leikur liðsins gegn Gróttu á útivelli 4. júlí gæti einnig verið í hættu.