Líklegt að fleiri leikjum Íslandsmótsins verði frestað

Úr leik Stjörnunnar og Fylkis á Samsung-vellinum í sumar.
Úr leik Stjörnunnar og Fylkis á Samsung-vellinum í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allar líkur eru á því að fresta þurfi fleiri leikjum á næstunni á Íslandsmótinu í knattspyrnu en leikmenn úr kvennaliði Breiðabliks og karlaliði Stjörnunnar hafa greinst með kórónuveiruna á undanförnum dögum.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að smitrakning sé nú á fullu og að þessi smit muni hafa talsverð áhrif á mótið. Þá er augljóst að þetta hefur áhrif á næstu leiki Stjörnunnar, þótt KSÍ hafi ekki frestað næstu leikjum liðsins. Þetta sagði Víðir Reynisson í útvarpsþætti fótbolta.net á X-inu 977. Búið er að fresta næstu leikjum Breiðabliks og KR í kvennadeildinni vegna smits.

Búið er að fresta leik KFG og Ægis í 3. deildinni í dag en hann átti að fara fram á Samsung-vellinum, heimavelli Stjörnunnar. Stjarnan á að taka á móti KA í Pepsi Max-deildinni á morgun en afar ólíklegt er að sá leikur geti farið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert