Útskriftarveisla sem haldin var í Kópavogi um síðustu helgi þar sem margir leikmenn í úrvalsdeild kvenna í fótbolta voru viðstaddir gæti dregið talsverðan dilk á eftir sér.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var þar á meðal gesta leikmaður úr liði Breiðabliks sem hefur síðan greinst með smit af kórónuveirunni. Eins og áður hefur komið fram eru lið Breiðabliks og KR bæði komin í tveggja vikna sóttkví í kjölfarið á viðureign liðanna á Kópavogsvelli á þriðjudagskvöldið.
Þegar hefur verið staðfest að tveir leikmenn úr liði Selfyssinga hafi verið í veislunni og þær verða ekki með liðinu í næstu viku. Um er að ræða einn af lykilmönnum liðsins, ásamt leikmanni sem hefur ekki komið við sögu í fyrstu umferðum Íslandsmótsins. Þær missa af leik Selfoss og Stjörnunnar í Garðabæ á miðvikudagskvöldið kemur.
Samkvæmt heimildum er smitrakning í gangi og gæti leitt til þess að leikmenn úr fleiri liðum í deildinni þyrftu að fara í sóttkví, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Sjá greinina í heild í Morgunblaðinu í dag.