Annað smit í úrvalsdeild kvenna

Leikmaður kvennaliðs Fylkis greindist með kórónuveiruna í dag.
Leikmaður kvennaliðs Fylkis greindist með kórónuveiruna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kórónuveirusmit greindist í leikmanni kvennaliðs Fylkis í knattspyrnu í dag. Þetta staðfesti Kjartan Stefánsson, þjálfari liðsins, í samtali við mbl.is í kvöld. Leikmaðurinn smitaðist að öllum líkindum í útskriftarveislu sem haldin var um síðustu helgi en þetta er annar leikmaðurinn í Pepsi Max-deild kvenna sem greinist með kórónuveiruna á stuttum tíma.

Þá er leikmaður karlaliðs Breiðabliks einnig kominn í sóttkví eftir að hafa farið í sömu útskriftarveislu og leikmaður karlaliðs Stjörnunnar greindist einnig með veiruna í vikunni eftir sömu útskrift. Næstu þremur leikjum Stjörnunnar í úrvalsdeild karla hefur verið frestað vegna þessa en allir leikmenn liðsins og þjálfarar eru nú í sóttkví.

Þá eru kvennalið Breiðabliks og KR bæði í sóttkví og það stefnir því allt í að Fylkiskonur þurfi einnig að fara í sóttkví á næstu dögum. Umræddur leikmaður Fylkis kom ekki við sögu í leik Fylkis og Þróttar í síðustu umferð Pepsi Max-deildarinnar og því ólíklegt að Þróttarar þurfi að fara í sóttkví eins og staðan er í dag.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort allt Fylkisliðið verði sett í sóttkví og næstu leikjum þeirra frestað. Það er ákvörðun sem verður að öllum líkindum tekin á morgun að sögn þjálfara Fylkisliðsins, en þeim hefur verið sagt að halda sig heima næstu daga og taka það rólega á meðan smitrakningarteymi Almannavarna reynir að átta sig á stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert