Breiðablik er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í Pepsi Max-deild karla í fótbolta en liðið vann 2:1-sigur á Fjölni á Kópavogsvelli í kvöld.
Fjölnir fór vel af stað og skapaði sér nokkur fín færi á upphafsmínútunum. Það besta fékk Arnór Breki Ásþórsson en hann negldi boltanum í slánna strax á fimmtu mínútu. Var það því gegn gangi leiksins þegar Breiðablik komst yfir á 8. mínútu. Nýtti Kristinn Steindórsson sér þá mistök Atla Gunnars Guðmundssonar í marki Fjölnis og skoraði með auðveldum skalla.
Breiðablik var mun meira með boltann það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, en tókst illa að skapa sér færi og var staðan í hálfleik því 1:0.
Fjölnismenn fengu dauðafæri til að jafna metin snemma í seinni hálfleik er Ingibergur Kort Sigurðsson náði í vítaspyrnu. Spyrnti hann boltanum að marki með þeim afleiðingum að hann fór í höndina á Damir Muminovic. Jóhann Árni Gunnarsson fór á punktinn en Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks varði slaka vítaspyrnu Jóhanns auðveldlega.
Blikar refsuðu skömmu síðar en varamaðurinn Brynjólfur Andersen Willumsson náði í vítaspyrnu tveimur mínútum eftir að hann kom inná. Daninn Thomas Mikkelsen fór á punktinn og skoraði af öryggi og kom Breiðabliki í 2:0 á 56. mínútu.
Egill Arnar Sigurþórsson var ekki hættur að dæma víti því 20 mínútum fyrir leikslok dæmdi hann þriðju vítaspyrnu leiksins er Elfar Freyr Helgason tæklaði varamanninn Jón Gísla Ström innan teigs. Jón fór sjálfur á punktinn og skoraði með skoti í bláhornið og staðan 2:1.
Fjölnismönnum gekk hinsvegar illa að skapa sér færi eftir markið og Breiðablik var líklegri aðilinn. Það kom því ekki á óvart að Gísli Eyjólfsson skoraði þriðja mark heimamanna á 84. mínútu með fallegu skoti rétt utan teigs og þar við sat í fjörlegum leik.
Breiðablik hefur gert nóg í fyrstu þremur leikjunum. Hefur liðið mætt Fylki, Gróttu og Fjölni og er ekki ósanngjarnt að gera kröfu á að Breiðablik vinni þá alla. Hefur liðið unnið síðustu tvo leiki án þess að spila sérstaklega vel, en það er merki um góð lið; að vinna leiki án þess að spila glimrandi góðan bolta í 90 mínútur.
Leikmannahópur Breiðabliks er gríðarlega sterkur og verður áhugavert að sjá liðið þegar það mætir sterkari andstæðingum. Var gerð krafa á níu stig úr fyrstu þremur leikjunum og það má hrósa liðinu fyrir að ná því marki, þótt spilamennskan hafi ekki verið glæsileg. Það eru stigin sem telja og það verður erfitt að ráða við Blikana, takist þeim að smella almennilega saman.
Fjölnir átti fína spretti í kvöld og nældi í tvær vítaspyrnur og var betri aðilinn framan af. Einhverjum fannst Breiðablik vera heppið að byrja á Gróttu, Fylki og Fjölni, en Fjölnismenn léku við Víking R., Stjörnuna og Breiðablik í fyrstu umferðunum. Spáðu því sennilega flestir fyrir mót að Fjölnir yrði stigalaus eftir fyrstu þrjá leikina, en liðið hefur leikið tvo leiki nokkuð vel og náð í eitt stig. Fjölnismenn ætla að bíta frá sér í sumar og gætu verið sýnd veiði en ekki gefin.