Nýjasti leikmaðurinn fer beint í sóttkví

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Gróttu.
Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Gróttu. Eggert Jóhannesson

Kieran McGrath, nýjasti leikmaður karlaliðs Gróttu í knattspyrnu, er á leið í sóttkví vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta staðfesti Ágúst Gylfason, þjálfari liðsins, í samtali við fótbolti.net í dag. McGrath er væntanlegur til landsins í dag en hann verður fjarverandi í næstu tveimur leikjum liðsins í það minnsta.

„Við ætlum að fara ákveðna leið vegna aðstæðna. Hann fer í skimun og svo í ákveðna sóttkví í nokkra daga. Hann fer svo aftur í skimun á þriðjudaginn. Hann kemur ekkert inn í hópinn fyrr en á fimmtudaginn,“ sagði Ágúst í samtali við fótbolti.net í dag. „Einn af þjálfurum okkar mun sjá um hann og vera með einstaklingsæfingar fyrir hann.“

„Sá þjálfari mun því sjálfur nánast vera í sóttkví. Við erum að passa vel upp á að ekkert komi upp á. Erlendir leikmenn eru að koma hingað til lands og við viljum passa algjörlega upp á að við séum ekki að taka inn mann og svo komi eitthvert vesen í ljós. Við erum ábyrgir í þessum efnum.

Stjórnin er að gera þetta ótrúlega vel og ég held að Víðir verði alla vega ánægður með okkur. Auðvitað vill maður að nýr leikmaður spili helst á morgun og það hefði að sjálfsögðu gerst í venjulegum aðstæðum. En við ætlum að bíða í viku áður en hann kemur inn í hópinn,“ bætti Ágúst við í samtali við fótbolti.net.

Grótta tekur á móti HK á morgun og sækir Fjölni heim á miðvikudag þannig að McGrath gæti fyrst spilað gegn ÍA sunnudaginn 12. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert