„Ég hefði náð boltanum“

Varamarkvörðurinn Viktor Örlygur Andrason, Þórður Ingason og Kári Árnason.
Varamarkvörðurinn Viktor Örlygur Andrason, Þórður Ingason og Kári Árnason. mbl.is/Árni Sæberg

Þórður Ingason, markvörður Víkings, sagðist ekki geta svarað því hvernig Víkingur muni manna miðvarðastöðurnar í næsta leik í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu gegn Val eftir allt sem gekk á í dag þegar KR og Víkingur mættust. 

Miðverðirnir þrír: Kári Árnason, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson fengu allir brottvísun gegn KR og verða í leikbanni gegn Val. Þórður sagði menn þurfa að leysa þessa stöðu með einhverjum hætti þegar mbl.is bar þetta undir hann í vesturbænum. 

„Ég þarf eiginlega að kanna hvað við eigum af miðvörðum. Við finnum einhverja, það er pottþétt. Það verða ellefu sem byrja inn á,“ sagði Þórður sem sjálfur þurfti að hafa varann á í dag því enginn var varamarkvörðurinn. Ingvar Jónsson er meiddur og Þórður tók stöðu hans en þriðji markvörður liðsins, Emil Andri Auðunsson er á láni hjá Hetti/Hugin. 

„Já ef sú staða hefði komið upp að ég hefði farið út af [vegna meiðsla eða brottvísunar] þá hefði Viktor Örlygur Andrason farið í markið. Hann er flottur á milli stanganna og seigur þótt hann sé kannski ekki dóminerandi í teignum,“ sagði Þórður og glotti. 

Hann var hins vegar svekktur yfir úrslitunum. „Það var svekkjandi að tapa þessu því við vorum í ágætis málum þegar við vorum ellefu á móti ellefu en einnig þegar við vorum tíu á móti ellefu fannst mér. Þá var ekki mikið vesen í gangi en þegar við misstum annan af velli var þetta orðið þungt og allt fór í skrúfuna þegar við misstum þriðja manninn af velli,“ sagði Þórður en eins og hann bendir á þá gekk Víkingum ágætlega í stöðunni tíu á móti ellefu og þá var jafnt í 35 mínútur eða svo. 

„Í stöðunni tíu á móti ellefu þá var allt í lagi hvernig leikurinn þróaðist. Við færðum okkur bara aðeins aftar og vörðumst en héldum samt áfram að pressa ef færi gafst. En eins og ég segi þá fór allt í vesen eftir að rauða spjaldið fór á loft í annað sinn.“

Kára Árnason fékk fyrstu brottvísun eftir liðlega stundarfjórðung. Kristján Flóki komst fram fyrir hann og féll við rétt utan teigs. Atvikið gerðist fyrir framan Þórð og spurður út í atvikið sagðist Þórður ekki telja að rautt spjald hafi verið réttur dómur. 

„Ég var kannski ekki með mjög gott sjónarhorn en mér fannst Flóki toga í Kára. Þegar Kári reynir að koma sér aftur fram fyrir Flóka þá dettur hann. Ég hefði hins vegar náð boltanum því hann hafði misst boltann of langt frá sér og hefði hvort sem er ekki náð honum. Mér fannst þetta því ekki rétt niðurstaða,“ sagði Þórður Ingason í samtali við mbl.is á KR-vellinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert