Dramatískt jafntefli á Akureyri

Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttunni á Akureyri í dag.
Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttunni á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Leikurinn byrjaði frekar rólega og héldu gestirnir úr Kópavogi boltanum vel án þess að skapa sér hættuleg færi í upphafi leiks. KA-menn sóttu í sig veðrið og var jafnræði með liðunum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Thomas Mikkelsen gerði gott mark á 45.mínútu leiksins eftir klafs í teig KA-manna og staðan 0:1 í hálfleik.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og ekkert sem benti til þess að KA-menn væru að fara að jafna. Kwame Quee sem kom inn á í fyrri hálfleik fyrir Gísla Eyjólfsson sem meiddist var mjög kraftmikill sem og Brynjólfur Willumson sem sýndi í dag hvað hann getur. Brynjólfur átti mikinn þátt í öllum sóknaraðgerðum Blika og hélt boltanum vel.

Þrátt fyrir það gáfust KA-menn ekki upp og uppskáru mark eftir hornspyrnu. Miðvörðurinn Brynjar Ingi gerði þar vel í að stýra boltanum inn. Lokamínútur þessa leiks voru ótrúlegar eins og stór hluti þessarar umferðar hefur verið. Á 90.mínútu fengu KA-menn víti þegar Róbert Orri virtist toga í Rodrigo inn í teig.  Guðmundur Steinn skoraði úr spyrnunni, hans fyrsta mark fyrir KA.

Gísli Eyjólfsson sækir að varnarmönnum KA.
Gísli Eyjólfsson sækir að varnarmönnum KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Það stefndi allt í sigur KA en í næstu sókn fengu Blikar víti þar sem undirlag vallarins spilaði inn í. Hrannar Björn ætlar að ná til boltans en rennur á grasinu, fær boltann í hendina og vítaspyrna réttilega dæmd. Thomas Mikkelsen skoraði úr spyrnunni af öryggi og lokatölur á Akureyri því 2:2.

Mikið hefur verið rætt og ritað um undirlagið á Greifavellinum, heimavelli KA-manna. Arnar Gunnlaugsson var ósáttur við grasið þegar lið Víkinga mætti hér í júní. Óskar Hrafn var sömuleiðis ekki sáttur við völlinn en hann talaði um “ömurlegan grasvöll“ í viðtali eftir leik. 

Völlurinn er mjög laus í sér og hann býður ekki upp á fallegan fótbolta. Það bætir svo ekki úr skák að leikmenn virðast eiga erfitt með að fóta sig á vellinum með tilheyrandi hættu á meiðslum. Það er ljóst að Akureyrarbær þarf að aðstoða KA við að koma vellinum í almennilegt ástand því þetta er ekki boðlegt. 

Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks.
Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
KA 2:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Thomas Mikkelsen (Breiðablik) skorar úr víti 2:2. Thomas skorar af öryggi úr vítinu. Algjörlega ruglaðar lokamínútur hér á Akureyri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka