Kári ósáttur við öll rauðu spjöldin

Kári Árnason og Halldór Smári Sigurðsson fengu báðir rauð spjöld …
Kári Árnason og Halldór Smári Sigurðsson fengu báðir rauð spjöld gegn KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Árnason var enn þriggja miðvarða Víkings í Reykjavík sem fékk beint rautt spjald í 0:2-tapi liðsins gegn KR á útivelli í Pepsi Max-deildinni á laugardaginn var. Kári segir í viðtali við Fótbolta.net að allir dómarnir hafi verið rangir. 

Kári fékk fyrsta spjaldið um miðjan fyrri hálfleik fyrir brot á Kristjáni Flóka Finnbogasyni, en Kristján Flóki viðurkenni í viðtali við Stöð 2 Sport að hann hafi farið auðveldlega niður. Þrátt fyrir það sagði fyrrverandi dómarinn Kristinn Jakobsson í viðtali við RÚV að dómurinn hafi verið réttur og við það er Kári ósáttur. 

„Eftir að Kristján Flóki viðurkennir að hann fari auðveldlega niður þá er hann samt að réttlæta rautt spjald. Hvaða skilaboð er hann að senda með þessu? Er hann að hvetja menn til að láta sig detta?“ spyr Kári í viðtali hjá Fótbolta.net

Sölvi Geir Ottesen, annar reynslubolti, fékk næsta rauða spjald í seinni hálfleik fyrir að slá til Stefáns Árna Geirssonar sem lá á vellinum. Kári er ósáttur þar sem Pablo Punyed ýtti Sölva á Stefán. 

„Rauða spjaldið hjá Sölva er út í hött. Það sést að honum er hrint. Svo tala menn um að hann hafi kýlt hann í andlitið. Hann rekur öxlina eða upphandlegginn í hann af því að það er hrint. Þessi hrinding í bakið á að verðskulda rautt spjald eða eitthvað,“ sagði Kári. Þá var hann einnig ósáttur við rauða spjaldið sem Halldór Smári Sigurðsson fékk skömmu fyrir leikslok. 

„Tæklingin hjá Halldóri Smára. Það er verið að tala um að hann eigi að hægja á sér. Þá nær hann ekki á boltanum. Þá kemur hann of seint. Hann nær boltanum og báðar lappir eru við jörðina. Þetta er heiðarleg tækling. Hún er hörð en Kennie fer að sama skapi hart í boltann og þar af leiðandi meiðir hann sig,“ sagði Kári við Fótbolta.net

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert