Veit ekki hvað kostar á völlinn

Kristinn Steindórsson og Þórir Jóhann Helgason bítast um boltann á …
Kristinn Steindórsson og Þórir Jóhann Helgason bítast um boltann á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var hörkuleikur og ég geri fastlega ráð fyrir því að þetta hafi verið skemmtilegur leikur á að horfa,“ sagði Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði FH, í samtali við mbl.is eftir 3:3-jafntefli liðsins gegn Breðabliki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Þetta hefði getað dottið hvoru megin sem var fannst mér. Við fengum færi til þess að klára leikinn í seinni hálfleik og þeir fengu færi til þess að gera það líka en markmenn beggja liða gerðu virkilega vel í kvöld. Ég veit ekki hvað kostar inn á völlinn en ég hugsa að fólk hafi fengið allt fyrir peninginn.

Við hefðum hugsanlega geta gert betur í varnarleiknum á einhverjum tímapunkti en annað markið hjá Mikkelsen er í heimsklassa og lítið hægt að gera í því. Það sást í kvöld að það er hægt að fínpússa ýmislegt í varnarleiknum en fótbolti snýst líka um að skora meira en andstæðingurinn og þá vinnur maður leikinn.“

Hafnfirðingar lentu tvívegis undir í leiknum en neituðu að gefast upp og komu tvívegis til baka.

„Það er styrkleikamerki að lenda tvívegis undir hérna og koma til baka, sérstaklega ef við skoðum hvernig tímabilið hjá okkur var í fyrra. Um leið og við lentum undir gegn þeim á síðustu leiktíð keyrðu þeir yfir okkur en það gerðist ekki í kvöld sem er jákvætt og ég er sáttur með eitt stig á Kópavogsvelli.“

FH er með 7 stig í fimmta sæti deildarinnar en liðið á leik til góða á liðin fyrir ofan sig.

„Mér finnst við vera á fínum stað. Við vorum skelfilegir á móti Víkingi á meðan þeir væru góðir og við ræddum það fyrir leik að við þyrftum að bæta fyrir þann leik í kvöld. Það kom ekki til greina að tapa hér í kvöld og ef hefðum verið aðeins kaldari í færunum hefðum við getað stolið sigrinum,“ bætti Björn Daníel við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert