Baráttusigur HK-inga á Blikum

Ívar Örn Jónsson skallar frá marki HK í leiknum í …
Ívar Örn Jónsson skallar frá marki HK í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

HK vann óvæntan sigur á Breiðabliki, 1:0, í uppgjöri Kópavogsliðanna í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í Kórnum í kvöld.

Birnir Snær Ingason skoraði sigurmark HK sem vann í fyrsta sinn í fimm leikjum og en nú komið með 8 stig í níunda sæti deildarinnar.

Blikum hefur hinsvegar ekki tekist að vinna í fimm leikjum í röð eftir góða byrjun á mótinu og síga niður töfluna með 11 stig.

Breiðablik sótti mun meira frá byrjun leiks en gekk illa að skapa sér marktækifæri gegn sterkum varnarleik HK.

Það var HK sem fékk fyrsta færið á 7. mínútu þegar Valgeir Valgeirsson átti skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf Ívars Arnar Jónssonar en Anton Ari Einarsson varði vel.

HK komst yfir á 21. mínútu þegar Anton Ari gerði stór mistök. Hann átti misheppnaða sendingu frá marki, beint á Birni Snæ Ingason sem tók við boltanum rétt utan vítateigs, lék á Damir Muminovic og sendi boltann með föstu skoti í vinstra hornið, 1:0.

Blikar sótti af krafti eftir þetta og fengu hverja hornspyrnuna á fætur öðru. Þeir fengu þó aðeins eitt færi uppúr því, Höskuldur Gunnlaugsson átti hörkuskot hægra megin úr vítateignum sem Sigurður Hrannar Björnsson í marki HK varði.

HK náði að komast framar á völlinn á lokakafla fyrri hálfleiks, Arnþór Ari Atlason var hársbreidd frá því að komast í boltann í dauðafæri og Ívar Örn Jónsson átti skot úr aukaspyrnu sem Anton Ari varði örugglega. Staðan var 1:0 í hálfleik.

Blikar komust í færi strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks, Alexander Helgi Sigurðarson átti fast skot hægra megin úr vítateig HK en Sigurður Hrannar varði örugglega.

Thomas Mikkelsen var síðan hársbreidd frá því að jafna á 64. mínútu þegar hann renndi sér í boltann í markteignum eftir sendingu Gísla Eyjólfssonar en hann fór framhjá stönginni hægra megin.

Blikar sóttu linnulítið eftir því sem leið á seinni hálfleikinn. Kwame Quee skallaði framhjá marki HK eftir aukaspyrnu á 83. mínútu.

HK fékk óvænt færi á 88. mínútu eftir fyrirgjöf frá hægri, Atli Arnarson stýrði boltanum á markið af stuttu færi en beint á Anton í markinu.

Blikar pressuðu látlaust í fimm mínútna uppbótartíma þar sem Kristinn Steindórsson fékk gott færi en skaut í varnarmann og horn. Höskuldur Gunnlaugsson átti síðan mjög gott færi en skaut yfir markið. HK hélt út og fagnaði baráttusigri þegar flautað var til leiksloka.

HK 1:0 Breiðablik opna loka
90. mín. 5 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka