Stjarnan áfram á sigurbraut á Skaganum

ÍA og Stjarnan eigast við í kvöld.
ÍA og Stjarnan eigast við í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stjörnumenn eru komnir í hóp efstu liða þrátt fyrir að eiga þrjá leiki inni á flest þeirra eftir sigur gegn ÍA, 2:1, í úrvalsdeild karla í fótbolta, Pepsi Max-deildinni, á Norðurálsvellinum á Akranesi í kvöld.

Stjarnan er því áfram eina ósigraða liðið í deildinni og er komið með 13 stig af fimmtán mögulegum eftir fimm fyrstu leiki sína. Skagamenn sitja eftir með 10 stig eftir átta leiki fyrir neðan miðja deild.

Eftir jafna baráttu í rúmar tuttugu mínútur komust Stjörnumenn yfir með glæsilegu marki. Hilmar Árni Halldórsson tók hornspyrnu frá vinstri, Skagamenn skölluðu frá en utarlega í vítateignum, hægra megin, tók Eyjólfur Héðinsson boltann viðstöðulaust á lofti og hamraði hann í markhornið fjær, 0:1.

Leikurinn var opinn og fjörugur eftir þetta, bæði lið fengu ágæt færi, en Stjörnumenn bættu við marki á 40. mínútu. Heiðar Ægisson sendi frá endamörkum vinstra megin, rétt útfyrir vítateiginn þar sem Alex Þór Hauksson tók við boltanum og skoraði með viðstöðulausu skoti með jörðinni í stöngina og inn, 0:2.

Skagamenn fengu sitt besta færi í fyrri hálfleik á lokamínútu hans þegar Stefán Teitur Þórðarson átti hörkuskot rétt utan markteigshornsins vinstra megin en Haraldur Björnsson kom út á móti honum og varði vel.

ÍA komst betur inn í leikinn á 58. mínútu með því að minnka muninn í 1:2. Aron kristófer Lárusson komst inn í vítateiginn vinstra megin og sendi fyrir markið á Viktor Jónsson sem skilaði boltanum í netið.

Stjörnumenn sóttu meira eftir markið og Eyjólfur Héðinsson var nærri því að skora sitt annað mark á 65. mínútu þegar hann átti hörkuskot í stöng Skagamarksins.

Gísli Laxdal Unnarsson fékk dauðafæri til að jafna metin á 78. mínútu eftir að hafa fengið langa sendingu inn í markteiginn hægra megin en skaut beint á Harald í markinu.

Að öðru leyti náðu Skagamenn ekki að ógna marki Stjörnunnar að ráði á lokakafla leiksins og Garðbæingar sigldu sigrinum heim.

ÍA 1:2 Stjarnan opna loka
90. mín. 3 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert