Valur getur farið upp í toppsæti Pepsi Max-deildar karla í fótbolta í kvöld. Til þess að það geti orðið að veruleika þarf liðið að vinna sinn fyrsta heimaleik í deildinni í sumar er Fylkir kemur í heimsókn. Valsmönnum hefur gengið mun betur á útivöllum á tímabilinu til þessa og aðeins fengið eitt stig úr þremur leikjum á Origo-vellinum á móti tólf úr fjórum leikjum á útivöllum. Er flautað til leiks klukkan 19:15 á Hlíðarenda.
Fylkismenn blanda sér að alvöru í toppbaráttuna með sigri en liðið er í þriðja sæti með tólf stig eftir fína byrjun. Unnu Fylkismenn fjóra leiki í röð eftir tap í fyrstu tveimur, en Árbæingar þurftu að játa sig sigraða gegn KR í síðustu umferð.
Annar stórleikur er á dagskrá í Kórnum klukkan 20:15, en þá fer fram Kópavogsslagur HK og Breiðabliks. Eftir góða byrjun hefur hægst á Breiðabliki undir stjórn Óskar Hrafns Þorvaldssonar og eru Blikar í fjórða sæti með ellefu stig. HK-ingar hafa aðeins unnið einn leik til þessa, gegn meisturum KR á útivelli. Þrjú stig yrðu því afar kærkomin fyrir bæði lið, sem og auðvitað montrétturinn.
Stjarnan leikur sinn fimmta leik í deildinni í sumar klukkan 18. Garðbæingar heimsækja Skagamenn á Norðurálsvöllinn, en bæði lið eru með tíu stig. Stjörnumenn eru hinsvegar í öllu betri stöðu þar sem liðið hefur leikið þremur leikjum færra. Er Stjarnan eina taplausa lið deildarinnar á meðan ÍA er sennilega óstöðugasta lið deildarinnar með þrjá sigra, þrjú töp og eitt jafntefli.
Loks mætast Grótta og Víkingur Reykjavík á Seltjarnarnesi. Grótta vann Fjölni þann 8. júlí síðastliðinn en hefur síðan tapað fyrir ÍA og KA. Víkingur tapaði fyrir Val 8. júlí, en hefur síðan unnið HK og ÍA. Víkingur verður að vinna leik sem þennan, ætli liðið sér að blanda sér í toppbaráttuna. Gróttumenn vonast hinsvegar til að fyrsti heimasigurinn komi í kvöld. Sölvi Geir Ottesen er löglegur með Víkingum á ný eftir þriggja leikja bannið sem hann fékk fyrir rauða spjaldið og framkomuna í leik Víkings og KR á dögunum.
Verða allir leikirnir í beinum textalýsingum hér á mbl.is.