Magni fékk sitt fyrsta stig í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, eftir dramatískt jafntefli gegn Grindavík, 3:3, á heimavelli sínum í dag. Keflavík vann á meðan öruggan heimasigur á Vestra, 4:1.
Grindvíkingar komust í 2:0 á Grenivík eftir mörk frá Josip Zeba og Guðmundi Magnússyni en Magni jafnaði metin með mörkum frá Costelus Lautaru og Tómasi Veigari Eiríkssyni.
Sindri Björnsson, leikmaður Grindavíkur, fékk rauða spjaldið seint í leiknum en Grindvíkingar virtust hafa tryggt sér sigurinn þegar varamaðurinn Oddur Ingi Bjarnason skoraði rétt fyrir leikslok, 3:2. En á sjöundu mínútu í uppbótartíma jafnaði Rúnar Þór Brynjarsson metin fyrir Magna, 3:3, nýkominn inná sem varamaður. Fimmta jafntefli Grindvíkinga í röð var staðreynd.
Keflvíkingar komust yfir í byrjun leiks gegn Vestra þegar Kian Williams skoraði. Milos Ivankovic jafnaði fyrir Vestra snemma í síðari hálfleik en Josep Gibbs kom Keflavík strax í 2:1 og Williams fylgdi því eftir með sínu öðru marki mínútu síðar. Þar með var mótspyrna vestanmanna á þrotum og Gibbs skoraði sitt annað mark, 4:1, þegar 20 mínútur voru eftir.
Keflvíkingar komust með þessu á topp deildarinnar með 17 stig en Leiknir R. er með 16, ÍBV 15, Fram 14 og Þór 13 stig og þau eiga öll leik til góða. Grindavík og Vestri eru í sjötta og sjöunda sæti með 11 stig en Magni situr á botninum við hlið Þróttar með eitt stig.