Tilfinningin var alls ekki góð

Árni Snær Ólafsson, markvörður og fyrirliði ÍA handsamar boltann í …
Árni Snær Ólafsson, markvörður og fyrirliði ÍA handsamar boltann í kvöld. mbl.is/Íris

Það voru blendnar tilfinningar hjá Jóhannesi Karli Guðjónssyni, þjálfara ÍA, eftir 5:3-tap gegn Breiðabliki á útivelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Breiðablik komst í 4:0 í fyrri hálfleik, en ÍA vann seinni hálfleikinn 2:1. 

„Það heppnaðist augsjáanlega ekki það sem við ætluðum að gera í fyrri hálfleik. Það er ansi margt sem við getum lært af þessum fyrri hálfleik. Ég er hinsvegar ótrúlega stoltur af mínum mönnum með hvernig seinni hálfleikurinn þróaðist og hugarfarinu sem við komum með út í hann. Það er skrítin tilfinning að lýsa því að ég sé ánægður með margt þrátt fyrir 5:3-tap,“ sagði Jóhannes í samtali við mbl.is. Hann viðurkennir að honum hafi ekki liðið sérstaklega vel í stöðunni 4:0 þar sem Breiðablik var líklegt til að bæta við enn fleiri mörkum. 

„Tilfinningin var alls ekki góð. Þeir gengu á lagið skipti eftir skipti og við vorum að reyna að bregðast við með að þétta enn meira, en þeir komust samt á milli línanna okkar óáreittir allt of oft. Við ákváðum að leggja meira á okkur í seinni hálfleik og þessir strákar hafa hörkugæði og við sýndum í seinni hálfleik að við erum með gott lið. Við sýndum það líka í fyrri hálfleik að þessi deild er gríðarlega erfið og menn verða að vera grimmir og ákafir á allan hátt, bæði með og án bolta ef þú ætlar að ná úrslit.“

Jóhannes breytti til í seinni hálfleik og setti Svíann Marcus Johansson á miðjuna, en hann lék í miðverði í fyrri hálfleik. Við það batnaði spilamennska Skagamanna til muna. „Marcus gerði virkilega vel, hann fór á miðjuna og var grimmur, vann mikið af boltum og hreyfði liðið vel með færslum og rak menn áfram. Það skilaði sér virkilega vel. Ég er ánægður með karakterinn og viljann í þessum strák að vilja berjast fyrir liðið þegar á reyndi.“

Framherjinn Viktor Jónsson varð að fara af velli um leið og hann skoraði þriðja markið, en Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks sparkaði í hann um leið og hann setti boltann í netið. „Ökklinn á honum er bólginn, en við vitum ekki meira að svo stöddu, því miður,“ sagði Jóhannes. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert