„Ég er ánægður með stigin þrjú, við höfum ekki fengið þau í síðustu leikjum og ég er ánægður með að fá þau í dag,“ sagði Kristinn Steindórsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 5:3-sigur á ÍA í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld.
Eins og lokatölurnar gefa til kynna var nóg um að vera í leiknum, en Breiðablik komst í 4:0 í fyrri hálfleik og spilaði gríðarlega vel.
„Það var nóg að gerast og ég held við höfum spilað frábæran fótbolta í fyrri hálfleik. Við vorum gjörsamlega með leikinn. Það var smá súrt að gefa þeim víti til að minnka muninn. Við erum svo smá kærulausir í byrjun seinni og hleypum þeim aðeins inn í þetta og við áttum að bæta við.
Þetta var aldrei í hættu en það er óþarfi að gefa þeim mörk þegar við erum að spila svona vel. Frammistaðan var mjög góð og mér fannst við vera með tök á leiknum. Við áttum að skora fleiri en við tökum þrjú stig,“ sagði Kristinn.
Breiðablik tapaði fyrir HK í síðasta leik og lék fimm leiki í röð án sigurs fyrir kvöldið. „Við fengum Gísla inn í byrjunarliðið sem var helvíti gott og svo vorum við staðráðnir í að gera betur en síðast. Núna small þetta loksins, en þetta hefur ekki alveg verið að detta hjá okkur. Við vorum með mikla yfirburði á móti HK en stundum nær maður ekki að nýta það. Í dag nýttum við það svo sannarlega,“ sagði Kristinn.