Garðbæingar enn taplausir

Hilmar Árni Halldórsson býr sig undir að skjóta að marki …
Hilmar Árni Halldórsson býr sig undir að skjóta að marki Víkings í leiknum í kvöld og augnabliki síðar lá boltinn í netinu. mbl.is/Arnþór

Stjarnan og Víkingur gerðu í kvöld 1:1 jafntefli í níundu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Samsung-vellinum í Garðabæ. 

Stjarnan er í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig eftir aðeins sex leiki en Víkingar eru í fimmta sætinu með 13 stig eftir níu leiki. Stjarnan er því enn án taps en liðið hefur unnið fjóra leiki og gert tvö jafntefli. 

Stjarnan byrjaði mun betur og hafði ágæt tök á leiknum fyrstu 20 til 25 mínúturnar. Hilmar Árni Halldórsson kom liðinu yfir á 14. mínútu með skoti utan teigs eftir sendingu frá Alex Þór Haukssyni. 

Víkingar unnu sig smám saman inn í leikinn og voru mun betri síðari hluta fyrri hálfleiks. Þeir fengu vítaspyrnu þegar Nikolaj Hansen féll í teignum og úr henni skoraði Óttar Magnús Karlsson á 44. mínútu. Hans áttunda mark í deildinni í sumar. Eftir hornspyrnu ætlaði Guðjón Baldvinsson að spyrna boltanum út úr teignum en Hansen komst fram fyrir og Guðjón sparkaði því í Hansen. Viss óheppni hjá Guðjóni en réttur dómur. 

Í síðari hálfleik var leikurinn býsna opinn án þess að liðunum tækist að nýta sér það til að tryggja sér sigur og þrjú stig. Á heildina litið var jafntefli nokkuð sanngjörn niðurstaða en Víkingar voru þó líklegri í síðari hálfleik. Þeir áttu fleiri sóknarlotur en voru ekki nógu beittir og hugmyndaríkir til að skapa sér dauðafæri gegn Garðbæingum sem kunna að verjast eins og dæmin sanna. Víkingar fengu til dæmis fimmtán hornspyrnur í leiknum. 

Deildin er galopin og þessi lið gætu bæði blandað sér baráttuna um titilinn. Alla vega ef ekkert lið nær afgerandi stöðugleika. Fyrir skömmu síðan virtist sem KR-ingar myndu ná því og myndu þar af leiðandi komast í kjörstöðu eins og á Íslandsmótinu í fyrra. Tveimur jafnteflum síðar hjá KR er staðan töluvert önnur. Byrjunin lofar mjög góðu fyrir Stjörnuna og framhaldið verður áhugavert hjá liðinu en það á þrjá leiki til góða á sum lið í deildinni. 

Þessi sömu lið mætast aftur í bikarnum næsta fimmtudag en þá í Fossvoginum. 

Stjarnan 1:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Víkingur R. fær hornspyrnu Frá vinstri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert