Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings, var nokkuð ánægður með spilamennskuna gegn Stjörnunni í kvöld en liðin gerðu 1:1 jafntefli í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu í Garðabænum.
„Mér leið eins og við værum með yfirhöndina í leiknum og ættum meira skilið. Mér fannst eins og við hefðum átt hættulegri færi. Alla vega svona fljótt eftir leik þá er það mín tilfinning. Við fengum færi í síðari hálfleik til að komast yfir. En þetta fór eins og það fór. Vissulega er svekkjandi að ná ekki í þrjú stig eins og við ætluðum að gera. Stjarnan hefur rakað inn stigum og því hefði verið mjög sterkt að fá þrjú stig í Garðabænum. Næsti leikur er í bikarnum [gegn Stjörnunni] og vonandi náum við að gera betur þá,“ sagði Sölvi þegar mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum.
Deildin er mjög opin og þótt Víkingar hafi gert fjögur jafntefli þá er liðið ekki ýkja langt frá toppliðunum. Hvernig sér Sölvi fyrir sér að deildin muni þróast?
„Um það er rosalega erfitt að segja. Fyrir sum af þessum liðum er möguleiki á að stinga af en óvænt úrslit hafa komið í veg fyrir það. Ég er lítill spámaður en vona að deildin verði þannig áfram og það er skemmtilegt fyrir stuðningsmennina.“