„Munum áfram verða leiðinlegir“

Brynjar Gauti með skemmtilega skottilraun í leiknum í kvöld.
Brynjar Gauti með skemmtilega skottilraun í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Brynjar Gauti Guðjónsson, miðvörður Stjörnunnar, benti glottandi á í samtali við mbl.is í kvöld að alla jafna væri ekki amalegt að vera taplaus í lok júlí á Íslandsmótinu í knattspyrnu. 

Málið horfir svolítið öðruvísi við þetta sumarið en vanalega þar sem Íslandsmótið hófst ekki fyrr en um miðjan júní. En það mega Garðbæingar eiga að þeir hafa ekki tapað leik. Hafa unnið fjóra og gert tvö jafntefli. 

„Staðan er fín þannig séð. Yfirleitt væri maður mjög sáttur við að vera taplaus í lok júlí. En þetta eru bara sex leikir og hellingur eftir af mótinu. Við getum því ekki klappað okkur á bakið strax. Ef við ætlum að halda áfram að safna stigum þá þurfum við að gera ennþá betur en við höfum gert hingað til,“ sagði Brynjar þegar mbl.is tók hann tali í Garðabænum í kvöld eftir 1:1 jafntefli gegn Víkingi. 

Í það minnsta er ljóst að erfitt er að leggja Stjörnuliðið að velli. Brynjar nefnir að umræðan um lið Stjörnunnar hafi stundum verið á þann veg síðustu árin að liðið spili leiðinlega knattspyrnu. 

„Oft er sagt að við séum leiðinlegasta lið landsins og við tökum þeim stimpli bara stoltir. Það er ógeðslega erfitt að spila á móti okkur. Við erum þéttir, verjumst vel en erum hættulegir frammi. Við ætlum bara að vera leiðinlegir áfram og vonandi skilar það okkur einhverju.“

Um leikinn gegn Víkingi sagði Garðbæinga ekki geta kvartað yfir því að hafa fengið eitt stig. 

„Maður er kannski aldrei sáttur við eitt stig á heimavelli en við getum ekki kvartað of mikið. Við byrjuðum reyndar vel og skoruðum gott mark en eftir það slokknaði eiginlega á okkur. Við hleyptum Víkingum allt of mikið inn í leikinn í fyrri hálfleik og þeir voru á undan í alla bolta. Þeir fengu einhver færi og við gáfum þeim auk þess víti eftir fast leikatriði sem á ekki að gerast. Í síðari hálfleik fannst mér leikurinn vera nokkurn veginn í jafnvægi,“ sagði Brynjar Gauti Guðjónsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert