„Ég hefði grenjað mig í svefn næstu þrjár nætur“

Frá leik liðanna á Akureyri í kvöld.
Frá leik liðanna á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir

Margrét Árnadóttir, leikmaður Þórs/KA, hefur gert góða hluti í sumar, skorað og lagt upp fyrir félaga sína. Hún var því ekki mjög hress í gærkvöldi þegar ljóst var að hún hafði verið sett á bekkinn fyrir leikinn gegn KR í kvöld. Margrét kom þó inn á í kvöld, snemma í seinni hálfleik, og skoraði með sinni fyrstu snertingu og jafnaði leikinn í 1:1. Hún kom svo mikið meira við sögu áður en yfir lauk og var fengin í viðtal eftir leik til að forvitnast um hvað gerðist í leiknum en Þór/KA vann hann 2:1. 

Þú kemur nokkuð óvænt og snögglega inn á í leiknum, vegna meiðsla hjá Karen Maríu. Þú skeiðar bara beint inn í teig, varla búin að hita upp, og skorar með þinni fyrstu snertingu. Þú hefur eflaust verið ákveðin í að sýna hvað í þér býr en hefur kannski ekki átt von á þessu. Sóknarleikur liðsins varð líka allt annar eftir að þú komst inn á. 

„Þetta kom aðeins á óvart en markmiðið mitt var að breyta sóknarleiknum. Við vorum marki undir en ég bjóst ekki við að þetta kæmi svona fljótt.“ 

Seinna í leiknum færðu víti þegar boltinn fer í hönd KR-ings þegar þú ert að komast fram hjá honum. Þú varst alltaf að fara að taka þetta víti en svo fór þó ekki. 

„Já, það voru klaufaleg mistök hjá mér. Dómarinn gaf mér gult spjald og sendi mig af velli til að taka úr mér eyrnalokkana. Ég var náttúrulega ekki ánægð með sjálfa mig að hafa gleymt að taka þá úr mér. Þó vil ég meina að þetta hafi verið skrifað í skýin því ég ætlaði að skjóta í hornið sem markmaðurinn fór í. Arna Sif þurfti að taka vítið fyrir mig og skaut í hitt hornið. Við getum alveg þakkað dómaranum fyrir að hafa gripið í taumana.“ 

Það er nú fjöldi starfsmanna á varamannabekknum og svo aðstoðardómari sem hleypir þér inn á völlinn. Á þetta fólk ekki að sjá um að allur búnaður sé í lagi. 

„Aðstoðardómarinn vildi fá að skoða mig rétt áður en ég fór inn á, eins og lög gera ráð fyrir, en sú soðun var greinilega ekki mjög góð skoðun. Mér er alveg sama fyrst Arna Sif skoraði. Ég hefði grenjað mig í svefn næstu þrjár nætur ef hún hefði klúðrað vítinu út af ruglinu í mér,“ sagði Margrét og hló. 

Þú ert nú komin með fjögur mörk og einhverjar stoðsendingar í sumar. Í fyrra misstir þú nánast af öllu tímabilinu vegna meiðsla og snemmbúnu kalli frá þjálfara skólaliðsins í Pittsburgh þar sem þú varst í skóla. Mér sýnist þú ákveðin í því að bæta upp fyrir tímabilið í fyrra með góðri frammistöðu í sumar. 

„Ég var mjög ósátt með það hvernig síðasta sumar fór og er komin til að vera núna, fer ekki aftur út. Ég ætla að taka þetta tímabil af fullum krafti og hjálpa liðinu mínu eins og ég get,“ sagði þessi skemmtilegi leikmaður að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert