Blikar upp í annað sætið

Ingvar Jónsson horfir vonsvikinn á eftir boltanum í netinu í …
Ingvar Jónsson horfir vonsvikinn á eftir boltanum í netinu í Fossvoginum í kvöld. mbl.is/Íris

Breiðablik sigraði Víking, 4:2, í 10. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld. Blikar eru eftir leikinn í öðru sæti deildarinnar með 17 stig en Víkingar eru í sjöunda sæti með 13 stig.

Fyrri hálfleikur var bráðfjörugur en Kristinn Steindórsson skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu með fallegu skoti. Víkingar tóku miðju í framhaldinu og Brynjólfur Darri Willumsson stal boltanum af varnarmanni þeirra og fiskaði víti. Hann skoraði sjálfur úr vítinu og því breyttist staðan úr 0:0 í 2:0 fyrir Breiðablik á nokkrum sekúndum.

Óttar Magnús Karlsson minnkaði muninn fyrir Víkinga með góðu skoti á 34. mínútu en það var svo Gísli Eyjólfsson sem skoraði síðasta og langfallegasta mark fyrri hálfleiks á 39. mínútu. Hann fékk boltann um 30 metra frá marki og þrumaði honum í slá og inn við samskeytin. Frábært mark og staðan 3:1 fyrir Breiðablik að loknum fyrri hálfleik. 

Fyrirliði Víkinga, Sölvi Geir Ottesen, minnkaði muninn í 2:3 þegar hann skoraði með góðum skalla eftir hornspyrnu frá vinstri á 51. mínútu. 

Brynjólfur innsiglaði sigur Blika þegar hann skoraði úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur á 90. mínútu. Víkingurinn Atli Barkarson fékk rautt spjald fyrir brotið og luku Víkingar því leiknum 10 á móti 11 Blikum.

Frábær leikur Brynjólfs Darra

Eftir heldur rýra uppskeru lengi vel í júlí virðast Blikarnir vera að hrökkva í gang. Leikmenn liðsins voru baráttuglaðir og ákveðnir í kvöld oglétu það ekki á sig fá þó lykilmenn eins og Damir Muminovic og Thomas Mikkelsen væru fjarri góðu gamni í kvöld.

Breiðablik er komið upp í annað sætið, fimm stigum á eftir toppliði Vals. Haldi liðið áfram á þessari braut geta grænir í Kópavogi látið sig dreyma um titilinn, hvenær svo sem mótinu lýkur í ár.

Liðsheildin hjá Blikum var sterk en Gísli Eyjólfsson og Brynjólfur Darri Willumsson voru fremstir meðal jafningja. Brynjólfur skoraði úr tveimur vítaspyrnum og var gríðarlega duglegur í fremstu víglínu. Reyndar vakti það athygli að hann virtist nánast aldrei fá neitt fyrir sinn snúð, sama hversu mikið var sparkað og togað í hann.

Gísli skoraði svo líklega mark ársins þegar hann negldi boltanum í slá og inn af 30 metra færi. 

Víkingar sakna Halldórs Smára og Kára

Víkingar sakna greinilega Halldórs Smára Sigurðssonar og Kára Árnasonar úr vörninni en þeir eru báðir meiddir. Varnarleikur liðsins var hálf óöruggur allan tímann og sést það í því að liðið fékk á sig fjögur mörk.

Víkingar ætluðu sér stóra hluti í sumar en eru nú í sjöunda sæti deildarinnar og verða að gjöra svo vel að stoppa í lekann í vörninni ef þeir ætla að berjast á „réttum“ enda töflunnar í haust og vetur.

Víkingur R. 2:4 Breiðablik opna loka
90. mín. Brynjólfur Willumsson (Breiðablik) fær víti Brynjólfur Darri fellur í baráttu við varnarmann Víkings og eftir smá umhugsunarfrest dæmir Erlndur vítaspyrnu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka