Miðjumaðurinn Gísli Eyjólfsson var kátur þegar grímuklæddur blaðamaður ræddi stuttlega við hann eftir 4:2-sigur Blika á Víkingum í 10. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Blikar eru eftir leikinn í öðru sæti deildarinnar en Víkingar því sjöunda.
„Þetta var karaktersigur hjá okkur,“ sagði brosmildur Gísli eftir leikinn í Víkinni í kvöld.
Breiðablik var 3:1 yfir að loknum fyrri hálfleik en Víkingar minnkuðu muninn snemma í seinni hálfleik og pressuðu nokkuð stíft á Blika eftir það.
„Það var full mikið panikk hjá okkur og við héldum ekki skipulagi. Svo sýndum við mikinn sigurvilja og baráttu sem tóku yfir,“ sagði Gísli en Brynjólfur Darri Willumsson innsiglaði 4:2-sigur þeirra með marki úr vitaspyrnu á 90. mínútu.
Gísli skoraði sjálfur þriðja mark Blika í kvöld og verður það líklegt tilnefnt sem mark ársins þegar mótinu lýkur. „Þetta er eitt af þessum mörkum þar sem maður lokar augunum og vonar það besta,“ sagði Gísli þegar hann var beðinn um að lýsa neglunni upp í skeytin.
„Ég leit aðeins inn í teiginn en sá ekki neitt og ákvað bara að láta vaða.“
Gísli saknaði áhorfenda í kvöld en eins og hefur komið fram er leikið án áhorfenda vegna kórónuveirufaraldursins.
„Mér finnst ömurlegt að það séu ekki áhorfendur en á sama tíma skil ég það. Ég vil frekar spila svona en að spila ekki. Við söknum áhorfendanna mikið.“