Grænir geta látið sig dreyma

Brynjólfur Willumsson var áberandi í gær.
Brynjólfur Willumsson var áberandi í gær. mbl.is/Íris

Breiðablik hefur svarað þriggja leikja taphrinu í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í síðasta mánuði með stæl en liðið vann sinn annan leik í röð í gærkvöld. Breiðablik heimsótti þá Víkinga í Fossvoginn og vann 4:2.

Fór Breiðablik fyrir vikið upp í annað sæti deildarinnar þar sem liðið hefur 17 stig, eins og KR og FH, fimm stigum minna en topplið Vals. Mikið hefur verið rætt og ritað um Brynjólf Andersen Willumsson hjá Breiðabliki í sumar og ekki alltaf á jákvæðu nótunum. Brynjólfur lét verkin tala í gærkvöld, skoraði tvö mörk og varnarmenn Víkinga fengu aldrei frið frá stráknum tvítuga.

„Breiðablik er komið upp í annað sætið, fimm stigum á eftir toppliði Vals. Haldi liðið áfram á þessari braut geta grænir í Kópavogi látið sig dreyma um titilinn, hvenær svo sem mótinu lýkur í ár. Liðsheildin hjá Blikum var sterk en Gísli Eyjólfsson og Brynjólfur Darri Willumsson voru fremstir meðal jafningja. Brynjólfur skoraði úr tveimur vítaspyrnum og var gríðarlega duglegur í fremstu víglínu. Reyndar vakti það athygli að hann virtist nánast aldrei fá neitt fyrir sinn snúð, sama hversu mikið var sparkað og togað í hann,“ skrifaði Jóhann Ólafsson m.a. um leikinn á mbl.is.

*Kristinn Steindórsson kom Breiðabliki á bragðið með sínu 40. marki fyrir liðið í efstu deild. Er hann fyrsti leikmaðurinn til að skora 40 mörk fyrir Breiðablik í deild þeirra bestu.

Sjáðu umfjöllunina um Pepsi Max-deild karla á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert