Sinnum þeim skyldum sem okkur ber að sinna

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er bara sóttkví á okkur og núna þurfa menn að sinna þeim skyldum sem okkur ber að sinna,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR í knattspyrnu, í samtali við Valtý Björn Valtýsson í útvarpsþættinum Mín skoðun á Sport FM í gær.

KR mætti Skotlandsmeisturum Celtic í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn síðasta en leiknum lauk með 6:0-sigri skoska liðsins.

Á miðnætti 19. ágúst tóku nýjar hertar sóttvarnarreglur gildi og þar sem Vesturbæingar lentu ekki fyrr en klukkan hálfeitt eftir miðnætti, aðfaranótt miðvikudags, er liðið nú komið í fjögurra til sex daga sóttkví.

„Það var ekki búið að staðfesta neitt áður en við fórum út en við vissum það, frá og með miðnætti í gær [fyrradag], að við værum á leið í sóttkví. Þegar við vissum að þessar dagsetningar myndu standast var of seint að breyta leiktíma leiksins þar sem Celtic var búið að selja sjónvarpsréttinn.

Þú breytir ekki leiktímum í Meistaradeild Evrópu með sólahringsfyrirvara, svo einfalt er það. Við vorum 36 mínútum of seinir og þannig er það bara. Við reyndum að sjálfsögðu að drífa okkur heim um leið og leikurinn kláraðist en það tókst því miður ekki.“

KR-ingar verða boðaðir í aðra skimun eftir helgi og þá kemur í ljós hvort liðið getur hafið leik að nýju á Íslandsmótinu.

„Við fórum í skimun í Keflavík þegar við lentum í nótt og svo fáum við svar út úr því fljótlega. Við þurfum svo að bíða í fjóra til sex daga eftir því að vera boðaðir í aðra skimun. Þegar hún er búin þurfum við að bíða í sirka sólarhring eftir svari og ef prófin reynast neikvæð erum við frjálsir eins og fuglinn,“ sagði Rúnar meðal annars.

Viðtalið í heild sinni má heyra með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert