Breiðablik þurfti að hafa verulega fyrir því að ná í þrjú stig á Seltjarnarnesi í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu í kvöld þótt heimamenn í Gróttu hafi verið með 10 menn frá því á 36. mínútu.
Breiðablik er með 20 stig og Grótta í 11. sæti með sex stig.
Ívar Orri Kristjánsson dómari leiksins var líklega mest áberandi á vellinum í kvöld en hann dæmdi tvær vítaspyrnur á Gróttu og rak Kristófer Melsteð út af á 36. mínútu.
Að loknum fyrri hálfleik var staðan 0:0 en Hákon Rafn Valdimarsson varði glæsilega vítaspyrnu frá Thomasi Mikkelsen á 27. mínútu. Vítaspyrnan var dæmd á Ástbjörn Þórðarson fyrir brot þegar Breiðablik tók hornspyrnu.
Sigurmarkið kom einnig úr vítaspyrnu en Mikkelsen brást ekki bogalistin tvisvar. Markið skoraði hann á 74. mínútu en Hákon var þó ekki langt frá því að verja. Varamaðurinn Stefán Ingi Sigurðarson nældi í vítaspyrnuna og hafði því mikil áhrif í sínum fyrsta leik í efstu deild.
Kristófer fékk að sjá rauða spjaldið þegar hann braut harkalega á Gísla Eyjólfsson sem var að reyna að komast inn fyrir vörn Gróttu í skyndisókn. Ástbjörn var við hliðina á brotinu og því matsatriði hjá Ívari Orra hvort hann teldi Gísla eiga greiða leið að markinu eða hvort Ástbjörn hafi verið aftasti maður.
Seltirningar voru ósáttir við að Viktor Örn Margeirsson hafi ekki fengið rauða spjaldið í fyrri hálfleik. Viktor braut harkalega á Axel sem var að sleppa inn fyrir strax á 4. mínútu. Atvikið var á vinstri kantinum og spurning hversu gott færi Axel hefði komist í en þarna hefði klárlega skapast hætta. Seint í fyrri hálfleik dæmir Ívar á Viktor þegar hann slæmdi hendi framan í leikmann Gróttu. Ekki held ég að það hafi verið viljaverk en fyrst Ívar dæmdi brot þá hefði Viktor getað fengið sitt annað gula spjald.
Það var því ýmislegt sem gekk á í leiknum. Ekki verður hér lagt mat á hvort fyrri vítaspyrnan hafi átt rétt á sér enda erfitt að sjá hvað gerist þegar leikmenn glíma í teignum þegar hornspyrna er tekin. Síðari vítaspyrnudómurinn var væntanlega réttur en þá var varamaðurinn Stefán Ingi kominn inn fyrir andstæðinginn þegar hann féll.
Baráttuandinn og viljinn var til staðar hjá Seltirningum í kvöld en það dugði ekki til að ná í stig. Þeir geta þó byggt ofan á slíka þætti auk þess sem Hákon var virkilega góður í markinu og liðinu gekk vel að verja markið með tíu menn á móti ellefu. Það getur verið vandrataður vegur að berjast af hörku en halda í skynsemina og yfirvegunina. Sérstaklega þegar menn búa ekki yfir mikilli leikreynslu. Leikmenn Gróttu voru ekki nægilega klókir og skynsamir. Of mikið er um brot í kringum teiginn og inni í teig sem getur bara verið dýrt.
Kristófer býður hættunni heim að fá rautt spjald með sinni tæklingu sem dæmi. Í aðdraganda þess atviks voru heimamenn einnig klaufar að leyfa Gísla að komast í þessa stöðu. Grótta átti nefnilega hornspyrnu en fékk skyndisókn í bakið þar sem tveir leikmenn liðsins misstu af boltanum.
Blikar er væntanlega fegnir að fara með þrjú stig úr leik þar sem þeir þurftu að bíða lengi eftir því að skora og klúðruðu auk þess vítaspyrnu. Óskar Hrafn þjálfari liðsins var ekki ánægður með frammistöðuna og fannst sínir menn vera þungir. Hægt er að taka undir það.