Keflavík endurheimti toppsæti Lengjudeildar karla í knattspyrnu þrátt fyrir að hafa gert 2:2-jafntefli gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ í 13. umferðinni í dag. Heimamenn jöfnuðu metin í blálokin.
Sindri Guðmundsson kom gestunum yfir strax á áttundu mínútu en Kári Steinn Hlífarsson jafnaði metin skömmu fyrir hálfleik. Markahrókurinn Joey Gibbs kom Keflavík aftur í forystu á 49. mínútu en Þetta var hans fjórtánda deildarmark fyrir liðið í 11 leikjum. Eyþór Aron Wöhler jafnaði hins vegar metin og tryggði heimamönnum stig tveimur mínútum fyrir leikslok.
Keflavík er því í toppsætinu með 24 stig, rétt eins og Framarar sem eru með lakari markatölu, +12 gegn +23. ÍBV er í þriðja sæti með 22 stig. Afturelding er í 8. sæti með 12 stig.
Umferðinni lýkur með tveimur leikjum á morgun. Vestri tekur á móti Víkingum úr Ólafsvík og Reykjavíkurliðin Leiknir og Þróttur mætast í Breiðholtinu.
Markaskorarar fengnir af urslit.net.