Lennon að skipa sér í hóp þeirra markahæstu - fellur metið?

Steven Lennon hefur skorað fimm af ellefu mörkum sínum fyrir …
Steven Lennon hefur skorað fimm af ellefu mörkum sínum fyrir FH á tímabilinu í leikjunum tveimur gegn HK í deildinni. Hér skorar hann í 3:2 sigri FH í fyrri leiknum í Kórnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skoski framherjinn Steven Lennon klifraði hressilega upp markalista efstu deildar íslenska karlafótboltans í gær þegar hann skoraði þrennu í sigri FH-inga á HK, 4:0, í Pepsi Max-deild karla í Kaplakrika.

Fyrsta mark Lennons í leiknum við HK var hans 80. í efstu deild og hann er fyrsti erlendi leikmaðurinn til að ná þeim áfanga. Hann er nú 21 marki á undan næsta erlenda markaskorara í deildinni sem er Patrick Pedersen Valsmaður með 61 mark.

Með því að bæta tveimur mörkum við á lokakafla leiksins er Lennon kominn með 82 mörk og hann fór upp fyrir tvo gamalkunna markahróka, Steingrím Jóhannesson frá Vestmannaeyjum og Guðmund Steinarsson frá Keflavík, sem hvor um sig skoraði 81 mark í deildinni á sínum tíma.

Lennon komst þar með upp í 10. sæti markalista deildarinnar frá upphafi en þar sitja nú jafnir hann og Arnar Gunnlaugsson, núverandi þjálfari Víkings R., en Arnar skoraði á árum áður 82 mörk í deildinni fyrir ÍA, KR, FH, Fram og Hauka.

Fimmtán markahæstu leikmenn deildarinnar frá upphafi eru eftirtaldir:

131 Tryggvi Guðmundsson
126 Ingi Björn Albertsson
113 Atli Viðar Björnsson
101 Guðmundur Steinsson
  95 Hermann Gunnarsson
  94 Matthías Hallgrímsson
  87 Hörður Magnússon
  83 Björgólfur Takefusa
  83 Ragnar Margeirsson
  82 Arnar Gunnlaugsson
  82 Steven Lennon
  81 Steingrímur Jóhannesson
  81 Guðmundur Steinarsson
  78 Ríkharður Jónsson
  77 Óskar Örn Hauksson

Steven Lennon hefur skorað 11 mörk í 11 leikjum FH …
Steven Lennon hefur skorað 11 mörk í 11 leikjum FH í deildinni á þessu tímabili og er markahæstur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enginn FH-ingur með fleiri þrennur

Þá er þetta þriðja þrennan sem Lennon skorar fyrir FH í deildinni. Áður skoraði hann þrennu fyrir FH gegn Leikni R. í 4:2 sigri í Kaplakrika 31. maí 2015 og fyrir FH gegn ÍA í 4:2 sigri á Akranesvelli 30. apríl 2017.

Áður hafa þrír leikmenn náð að skora þrjár þrennur fyrir FH í deildinni. Hörður Magnússon á árunum 1993-1996, Allan Borgvardt á árunum 2004-2005 og Atli Guðnason á árunum 2012-2014.

Þá er Lennon orðinn þriðji markahæsti leikmaður FH í efstu deild karla frá upphafi með 69 mörk fyrir Hafnarfjarðarfélagið. Hann og Atli Guðnason voru jafnir með 66 mörk fyrir leikinn í gær. Atli Viðar Björnsson, 113 mörk, og Hörður Magnússon, 84 mörk, hafa skorað fleiri mörk fyrir FH í deildinni en Skotinn.

Er markametið í hættu?

Markametið í úrvalsdeild karla er 19 mörk en því deila fimm leikmenn. Pétur Pétursson, ÍA, setti metið árið 1978 og síðan hafa Guðmundur Torfason úr Fram (1986), Þórður Guðjónsson úr ÍA (1993), Tryggvi Guðmundsson úr ÍBV (1997) og Andri Rúnar Bjarnason úr Grindavík (2017) náð að jafna það.

Tekst Steven Lennon að verða fyrsti leikmaðurinn í sögunni til að skora 20 mörk í deildinni? Eftir ellefu mörk í ellefu leikjum ætti það að vera raunhæfur möguleiki en þá þarf hann að skora níu mörk í þeim ellefu leikjum sem Hafnarfjarðarliðið á eftir að spila. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert