Víkingur R. er úr leik í Evrópudeild UEFA í knattspyrnu eftir súrt 2:1 tap fyrir Olimpija Ljubljana eftir framlengdan leik í Slóveníu í kvöld í 1. umferð keppninnar.
Um einn leik er að ræða og var því leikið til þrautar en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1:1. Slóvenska liðið fer áfram í 2. umferð keppninnar.
Víkingar voru örfáum mínútum frá því að komast áfram. Þrátt fyrir að hafa verið manni færri frá því á 5. mínútu þá komust þeir 1:0 yfir og Slóvenarnir jöfnuðu ekki fyrr en á 88. mínútu.
Sölvi Geir Ottesen fékk að sjá rauða spjaldið strax á 5. mínútu. Ante Vukusic komst inn fyrir Sölva og var að sleppa einn í gegn Ingvari þegar Sölvi togaði hann niður rétt utan teigs. Sölvi var með höndina úti og togaði aðeins í Slóvenann og því væntanlega hægt að réttlæta þennan dóm.
Á 27. mínútu komust Víkingar óvænt yfir. Erlingur Agnarsson kom sér í skotfæri utan teigs og náði fínu skoti sem markvörður Olimpija varði. Boltinn hrökk út í teiginn og beint á Óttar Magnús Karlsson sem renndi boltanum í hægra hornið af yfirvegun.
Víkingum gekk býsna vel að halda Slóvenunum í skefjum í sumarhita þótt þeir væru einungis tíu. Síðastu tíu mínúturnar þyngdust sóknir Olimpija umtalsvert en eins og fyrr segir kom jöfnunarmarkið ekki fyrr en á 88. mínútu. Matic Fink tók boltann á lofti hægra megin í teignum og í frekar þröngu færi en boltinn rataði neðst í fjærhornið.
Sigurmarkið kom á fyrstu mínútu síðari hálfleiks framlengingarinnar og þar var á ferðinni Radivoj Bosic. Fékk boltann frá hægri og skoraði með skoti í slána og inn úr miðjum vítateignum og með vafning um höfuðið en hann fékk gat á höfuðið í fyrri hálfleik framlengingar.