Shameeka Fishley reyndist hetja Stjörnunnar þegar liðið fékk ÍBV í heimsókn í 12. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Samsung-vellinum í Garðabæ í dag.
Leiknum lauk með 1:0-sigri Garðbæinga en Fishley skoraði sigurmarkið á 86. mínútu með laglegu einstaklingsframtaki.
Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir sendi þá boltann fram völlinn úr öftustu víglínu á Fishley sem tók boltann niður og þrumaði honum svo upp í samskeytin nær og þar við sat.
Stjarnan fer með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar í 11 stig en ÍBV er í fimmta sætinu með 16 stig.
Garðbæingar voru mikið að reyna að þræða sig í gegnum vörn Eyjakvenna en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Sóknarleikurinn var ekki upp á marga fiska og það skorti oft á tíðum gæðin á síðasta þriðjungi vallarins en töfrar frá Shameeku Fishley sáu um að tryggja Stjörnunni þrjú stig.
Markvörðurinn Erin McLeod var besti leikmaður Stjörnunnar en hún hélt liði sínu inni í leiknum á löngum köflum og átti nokkrar frábærar vörslur.
Eyjakonur voru sterkari aðilinn í leiknum og þær eru klárlega afar ósáttar með að tapa leiknum.
Miyah Watford fór illa með nokkur færi í leiknum og hún sefur eflaust ekkert allt of vel í nótt.
Eyjakonur voru gríðarlega þéttar til baka, með fjóra til fimm leikmenn sem einfaldlega fara ekki yfir miðju, en það bjargaði þeim ekki þegar þær fengu á sig sigurmarkið.