BDS á Íslandi hefur fordæmt ákvörðun Knattspyrnusambands Íslands um að gera samning við íþróttavöruframleiðandann Puma sem er að þeirra sögn stoltur styrktaraðili stríðsglæpa ísraelskra stjórnvalda.
„Puma er stoltur styrktaraðili landtökubyggða og hernáms, aðskilnaðarstefnu og mannréttindabrota ísraelskra stjórnvalda,“ segir í yfirlýsingu BDS Íslands á Facebook. Er BDS alþjóðleg hreyfing sem hvetur til sniðgöngu á Ísrael og fjárfestingum tengdum landinu þar til stjórnvöld þar í landi fylgja alþjóðalögum og virða mannréttindi Palestínumanna.
Gerði KSÍ sex ára samning við Puma fyrr á árinu og munu landslið Íslands klæðast treyjum frá fyrirtækinu. „Einkaleyfi Puma í Ísrael tilheyrir Delta Israel, fyrirtæki sem starfar í ólöglegum landtökubyggðum ísraelskra stjórnvalda. Landtökubyggðir eru skilgreindar sem stríðsglæpur,“ segir í færslu BDS.
Taka samtökin fram að lið á borð við Chester og Liverpool á Englandi hafi leitað til annarra íþróttavöruframleiðenda vegna tengsla Puma við Ísrael. „Veit KSÍ að PUMA er stoltur styrktaraðili stríðsglæpa ísraelskra stjórnvalda?“ er meðal spurninga á samfélagsmiðlum BDS.