Segir KSÍ styðja mannréttindabrot

KSÍ leikur undir merkjum Puma næstu sex árin.
KSÍ leikur undir merkjum Puma næstu sex árin. Ljósmynd/KSÍ

BDS á Íslandi hefur fordæmt ákvörðun Knattspyrnusambands Íslands um að gera samning við íþróttavöruframleiðandann Puma sem er að þeirra sögn stoltur styrktaraðili stríðsglæpa ísraelskra stjórnvalda. 

„Puma er stoltur styrktar­aðili land­töku­byggða og her­náms, að­skilnaðar­stefnu og mann­réttinda­brota ísraelskra stjórn­valda,“ segir í yfirlýsingu BDS Íslands á Facebook. Er BDS alþjóðleg hreyfing sem hvetur til sniðgöngu á Ísrael og fjárfestingum tengdum landinu þar til stjórnvöld þar í landi fylgja alþjóðalögum og virða mannréttindi Palestínumanna. 

Gerði KSÍ sex ára samning við Puma fyrr á árinu og munu landslið Íslands klæðast treyjum frá fyrirtækinu. „Einka­leyfi Puma í Ísrael til­heyrir Delta Is­rael, fyrir­tæki sem starfar í ó­lög­legum land­töku­byggðum ísraelskra stjórn­valda. Land­töku­byggðir eru skil­greindar sem stríðs­glæpur,“ segir í færslu BDS.

Taka samtökin fram að lið á borð við Chester og Liverpool á Englandi hafi leitað til annarra íþróttavöruframleiðenda vegna tengsla Puma við Ísrael. „Veit KSÍ að PUMA er stoltur styrktar­aðili stríðs­glæpa ísraelskra stjórn­valda?“ er meðal spurninga á samfélagsmiðlum BDS. 

 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert