„Við erum mjög ánægðar. Við höfum lagt mikið á okkur í sumar og það var gott að geta loksins fagnað. Þetta var risastór sigur fyrir okkur og eitthvað sem við þurftum á að halda,“ sagði kát Stephanie Ribeiro í samtali við Morgunblaðið. Ribeiro skoraði sigurmark Þróttar í óvæntum 2:1-sigri á Fylki á heimavelli í 12. umferð Pepsi Max-deildarinnar og fékk 2 M fyrir frammistöðu sína í leiknum. Var aðeins um annan sigur Þróttar í sumar að ræða, þrátt fyrir heilt yfir fína spilamennsku í sumar. Með sigrinum fóru nýliðarnir upp fyrir KR og upp úr fallsæti.
„Við héldum áfram allan tímann og gáfumst ekki upp. Við reyndum eins og við gátum að pressa á þær og við leyfðum þeim ekki að hafa boltann og stjórna leiknum. Við náðum svo að sækja mikið og vorum stórhættulegar fram á við. Við fengum á okkur mark, en við héldum áfram, skoruðum tvö mörk og héldum út. Við vörðumst virkilega vel og allir lögðu sitt af mörkum til að sigla þessu heim,“ sagði Ribeiro, en sigurmark hennar kom á 42. mínútu. Guðrún Karítas Sigurðardóttir kom Fylki yfir á 14. mínútu og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir jafnaði á 38. mínútu.
Sóknarmaðurinn er ánægð með frammistöðu Þróttar til þessa í sumar, þótt sigrarnir til þessa hafi staðið á sér. „Við höfum verið inni í öllum leikjunum, sama hver andstæðingurinn er, en við höfum ekki alltaf náð í úrslitin sem við eigum skilið. Það var virkilega gott að ná öllum pakkanum á laugardag; spila vel og ná í sigurinn. Ég er klárlega ánægð með okkar spilamennsku heilt yfir, en við viljum meira. Við viljum halda þessu áfram og ná í fleiri góð úrslit, sem við eigum skilið. Við höfum nokkrum sinnum hugsað til baka og verið ánægðar með frammistöðuna þrátt fyrir að ná ekki að vinna. Þegar upp er staðið skiptir það hins vegar ekki máli ef þú vinnur ekki.“
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag ásamt úrvalsliði 12. umferðar.