FH vann sinn þriðja sigur í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, þegar liðið fékk KR í heimsókn í 13. umferð deildarinnar á Kaplakrikavöll í Hafnarfirði í dag.
Leiknum lauk með 4:2-sigri Hafnfirðinga sem leiddu með tveimur mörkum gegn engu i hálfleik.
Phoenetia Browne kom FH yfir á 29. mínútu eftir frábæra sendingu Valgerðar Óskar Valsdóttir inn fyrir vörn KR. Browne tók mjög vel á móti boltanum, hafði betur í baráttunni við Ingunni Haraldsdóttur fyrirliða KR, og setti boltann fram hjá Ingibjörgu Valgeirsdóttur í marki KR.
Helena Ósk Hálfdánardóttir bætti við öðru marki FH fjórum mínútum síðar, þegar hún skoraði af stuttu færi út teignum eftir hornspyrnu.
Ingunn Haraldssdóttir minnkaði muninn fyrir KR á 62. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Kristínar Ernu Sigurlásdóttur en Maddy Gonzalez kom FH tveimur mörkum á nýjan leik með hnitmiðuðu skoti úr teignum eftir að KR mistókst að hreinsa boltann frá marki.
Alma Mathiesen minnkaði muninn fyrir KR á nýjan leik þegar hún vippaði boltanum yfir Telmu Ívarsdóttur í marki FH eftir frábæra sendingu Guðmundu Brynju Óladóttur.
Það var hins vegar Andrea Mist Pálsdóttir sem innsiglaði sigur FH með marki beint úr aukaspyrnu frá vinstri á 82. mínútu en Ingibjörg í marki KR átti að gera miklu betur þar.
FH fer með sigrinum upp í níunda sætið og úr botnsætinu en liðið er með 9 stig eftir tólf leiki.
KR er hins vegar í neðsta sæti deildarinnar með 7 stig en liðið hefur leikið níu leiki í sumar.
Það var fátt sem benti til þess að FH væri að fara vinna marga knattspyrnuleiki fyrir rúmum einum og hálfum mánuði síðan þegar liðið tapaði 1:0 á heimvelli fyrir ÍBV. Sóknarleikur liðsins var afar slakur og liðið hafði aðeins unnið einn deildarleik og skorað tvö mörk. Liðið hefur hins vegar unnið tvo af síðustu þremur deildarleikjum sínum og virðist vera finna taktinn.
Tilkoma Phoenetia Browne hefur gjörbreytt allri ásýnd liðsins og hún er nú þegar orðin lang mikilvægasti leikmaður Hafnfirðinga. Hún hefur nú skorað 3 mörk í fjórum leikjum fyrir FH í sumar en frá því að hún lék sinn fyrsta leik fyrir félagið, gegn Breiðabliki 16. ágúst, hefur liðið skorað sjö mörk í fjórum leikjum.
Hún er góð í að halda bolta, góð að taka leikmenn á og gríðarlega sterk. Hún gerir líka aðra leikmenn FH mun betri og það er miklu meira sjálfstraust í liðinu þegar hún er í fremstu víglínu. Þá hefur Maddy Gonzalez einnig stigið upp með tilkomu Browne, sem og Andrea Mist Pálsdóttir og Sigríður Lára Garðarsdóttir sem eru jákvæðar fréttir fyrir Hafnfirðinga.
Þetta var fyrsti deildarleikur KR-liðsins eftir sóttkví en liðið vann FH í átta liða úrslitum bikarkeppninnar, einmitt á Kaplakrikavelli hinn 3. september síðastliðinn. Vesturbæingar hafa þurft að fara fjórum sinnum í sóttkví í sumar, tvisvar þar sem að aðili tengdur liðinu, hefur smitast af kórónuveirunni sem er með öllu óásættanlegt.
Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari KR, mætti kokhraustur í viðtal fyrr í sumar þar sem að hann talaði um að kvennabolti í dag snérist um miklu meira en bara hraða. Hann virðist allavega ekki vera búinn að finna formúluna fyrir því hvernig lið hans á að sækja stig án þess að vera með hraðasta liðiðið í deildinni.
Guðmunda Brynja Óladóttir lék sinn fyrsta leik í sumar eftir að hafa slitið krossband á síðasta keppnistíambili. Það eru góðar fréttir fyrir KR. Hún er bæði frábær leikmaður sem býr yfir ákveðnum hraða, eitthvað sem KR liðið sárlega vantar, því það er erfitt að skora fótboltamörk ef að andstæðingurinn nær alltaf að hlaupa uppi sóknarmennina þína.