Stjarnan náði í þrjú stig þegar liðið heimsótti Selfoss í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu. Stjarnan hafði betur 3:2 .
Selfoss er með 16 stig og Stjarnan er nú með 14 stig en úrslitin koma töluvert á óvart þar sem Selfoss hefur undanfarið unnið Breiðablik í deildinni og Val í bikarnum.
Leikurinn byrjaði með látum því Betsy Hassett skoraði fyrir Stjörnuna eftir aðeins 22 sekúndur. Fylgdi á eftir skoti frá Shameeku Fishley.
Fishley lagði einnig upp annað markið þegar hún gaf fyrir og Aníta Ýr Þorvaldsdóttir skoraði af stuttu færi á 10. mínútu. Stjarnan byrjaði leikinn því virkilega vel.
Selfyssingar unnu sig inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleik og minnkuðu muninn á 36. mínútu þegar Barbára Sól Gísladóttir skoraði eftir aukaspyrnu fyrirliðans Önnur Maríu Friðgeirsdóttur.
Fishley svaraði hins vegar með þriðja marki Stjörnunnar á 39. mínútu og skoraði því eitt og lagði upp tvö mörk í fyrri hálfleik. Fékk góða sendingu frá Hassett inn fyrir vörnina og renndi boltanum í vinstra hornið.
Í síðari hálfleik þurftu Selfyssingar að bíða lengi eftir öðru marki sínu þrátt fyrir að sækja töluvert. Of lengi til að hleypa verulegri spennu í leikinn. Markið kom í uppbótartíma og það skoraði Helena Hekla Hlynsdóttir með skalla eftir fyrirgjöf frá Magdalenu Önnu Reimus en báðar komu þær inn á sem varamenn.
Aðstæður voru erfiðar á Selfossi í dag. Rok og rigning sem setti verulegan svip á leikinn. Völlurinn þó góður og engin pollamyndun sjáanleg þrátt fyrir mikla rigningu.
Leikmenn Selfoss virtust ekki vera viðbúnar hættulegum skyndisóknum Stjörnunnar en mörkin þrjú komu eftir hraðar sóknir. Fyrir vikið komst Stjarnan strax í mjög góða stöðu því liðið var með tveggja marka forskot eftir aðeins tíu mínútna leik. Forskotið var auk þess tvö mörk fyrir síðari hálfleikinn. Stjarnan var með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og hafði það ef til vill einhver áhrif.
Í siðari hálfleik fór leikurinn fram að töluvert miklu leyti á vallarhelmingi Stjörnunnar. Þá hafði enn frekar bætt í bæði vindinn og rigninguna. Því fylgdi þó engin stórskotahríð að marki gestanna. Selfoss skapaði sér fá dauðafæri í leiknum. Liðið var oft í ágætri stöðu til að búa eitthvað til. Fékk ellefu hornspyrnur og nokkrar aukaspyrnur sem var hægt að senda inn á teiginn. Lítið varð úr því. Þær voru ónákvæmar í nokkur skipti og í önnur skipti réðu varnarmenn Garðbæingar við tilraunir Selfyssinga. Ekki er auðvelt að eiga við Dagnýju Brynjarsdóttur í loftinu en ég man bara eftir einu tilfelli þar sem hún náði skalla eftir hornspyrnu og þá fór boltinn yfir.
Lið Selfoss er ekki nægilega stöðugt til að gera atlögu að Íslandsmeistaratitlinum þetta sumarið. Undanfarið hefur liðið unnið Breiðablik á útivelli í deildinni og Val heima í bikarnum. Liðið á eftir báða leikina gegn Val í deildinni en of mörg stig eru farin í súginn til að liðið nái að stríða Breiðabliki og Val. Nú áttu kannski margir von á því að liðið færi á flug og úrslitin í dag komu því sjálfsagt mörgum á óvart.
Lið Stjörnunnar gæti átt eftir að taka fleiri stig í síðari hluta mótsins heldur en í þeim fyrri ef mið er tekið af leiknum í dag. Vafalaust er gott fyrir unga leikmenn liðsins að fá Málfríði Ernu Sigurðardóttur í miðja vörnina. Hún getur miðlað af sinni reynslu enda með á þriðja hundrað leiki í deildinni. Markvörðurinn Erin McLeod er ef til vill á niðurleið á sínum ferli en hún getur einnig hjálpað til við að skipuleggja vörnina eins og Málfríður. Þegar liðið var á móti vindinum í síðari hálfleik þá hefði getað verið hættulegt fyrir Stjörnuna ef Selfoss hefði náð að skora annað mark tímanlega. Þeim tókst hins vegar að koma í veg fyrir það og markið kom ekki fyrr en í uppbótartíma.
Shameeka Fishley og Betsy Hassett gerðu virkilega vel í sókninni í fyrri hálfleik þegar grunnurinn var lagður að sigrinum. Þær fengu hins vegar ekki úr miklu að moða í síðari hálfleik eins og leikurinn þróaðist.