Það tók Valskonur aðeins fimm mínútur að skora og ná yfirhöndinni gegn ÍBV að Hlíðarenda í dag, síðan var bara spurning um hvað sigurinn yrði stór og 4:0 dugði til að sigra og halda um leið efsta sæti efstu deildar kvenna í fótbolta, Pepsi Max-deildinni.
Eyjastúlkan Miyah Watford átti fyrsta færið strax á 1. mínútu en Sandra í marki Vals varði vel. Þar með vissu Valskonur að þær þyrftu að vinna fyrir stigunum og áður en mínúta var liðin munaði minnstu að Valur kæmist yfir. Það liðu hins vegar fjórar mínútur til viðbótar þar til Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði fyrsta mark Vals af stuttu færi eftir frábæra hornspyrnu Hallberu Guðnýjar Gísladóttur. Á 18. mínútu átti síðan Gunnhildur Yrsa skot í slána en á 29. mínútu gerðu Eyjakonur sjálfsmark. Tíu mínútum síðar skoraði Gunnhildur Yrsa aftur, nú af stuttu færi, þegar boltinn rann fyrir hana eftir snögga sókn.
ÍBV skipti í hálfleik út þremur leikmönnum, sem höfðu staðið sig ágætlega og rætt var um að liðið ætlaði sér að hvíla þá. Reyndar var eins og Valskonur væru líka að hvíla sig, það vantaði neistann og með því að vanda sig hefði liðið getað byrjað strax að bæta við mörkum. Arna Eiríksdóttir náði þó að innsigla sigur með góðu skallamarki af stuttu færi eftir hornspyrnu.
Með sigrinum halda Valskonur efsta sæti deildarinnar með fjórum stigum meira en Blikakonur, sem eiga leik seinna í dag. Markatala Kópavogsliðsins er miklu betri og ef það á að saxa á hana hefðu Valskonur þurft að láta mun meira til sína taka í seinni hálfleik. ÍBV er eftir sem áður í 5. sæti deildarinnar.