Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, er að snúa aftur á völlinn eftir langa fjarveru en þetta staðfesti hún í samtali við mbl.is í morgun.
Anna María hefur ekkert leikið með Garðbæingum í sumar en hún tognaði illa aftan í læri, tveimur vikum áður en Pepsi Max-deildin hófst. Það stóð hins vegar til að hún myndi koma aftur inn í liðið um miðjan júlí.
Það gekk hins vegar ekki eftir en vonir standa til þess að hún geti spilað eitthvað gegn Breiðabliki á miðvikudaginn kemur og svo gegn Val 13. september. Eftir það tekur við tveggja vikna landsleikjahlé og vonast varnarmaðurinn til þess að vera komin á fullt þegar því lýkur.
Anna María er einungis 26 ára gömul en hún er uppalin í Garðabænum og á að baki 142 leiki fyrir félagið í efstu deild þar sem hún hefur skorað tvö mörk.
Þá á hún að baki 9 A-landsleiki fyrir íslenska kvennalandsliðið.
Stjarnan er í sjötta sæti Pepsi Max-deildarinnar með 14 stig eftir tólf leiki, 6 stigum frá fallsæti.