Belgía vann öruggan 5:1 sigur gegn Íslandi í annarri umferð 2. riðils A-deildarinnar í Þjóðadeild UEFA í fótbolta á Stade Roi Baudouin leikvanginum í Brussel í kvöld. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 2:1.
Belgar unnu Dani 2:0 í Kaupmannahöfn í fyrstu umferðinni á laugardaginn en Íslendingar töpuðu 0:1 fyrir Englendingum, á dramatískan hátt á Laugardalsvellinum.
Ísland komst yfir í leiknum þegar Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði strax á 10. mínútu og þar með sitt annað mark fyrir A-landsliðið. Hólmbert fékk boltann frá Birki. Hólmbert var við vítateigsbogann og lét vaða með vinstri fætinum. Denayer reyndi að komast fyrir skotið og við það skrúfaðist boltinn upp í loftið, sveif yfir Casteels í markinu og í slána og inn.
Íslendingar höfðu hins vegar ekki forystuna lengi því Axel Witsel jafnaði á 13. mínútu. Náði frákastinu og skoraði af stuttu færi eftir að Ögmundur varði gott skot frá Mertens úr aukaspyrnu.
Skammt var stórra högga á milli því Michy Barshuayi kom Belgíu yfir á 17. mínútu. Fylgdi á eftir og skoraði af stuttu færi eftir að Ögmundur varði skot frá Witsel.
Var staðan 2:1 að loknum fyrri hálfleik og ágæt frammistaða hjá vængbrotnuðu liði Íslands.
Vonin um að Íslendingar gætu haldið spennu í leiknum gegn efsta liði heimslistans var orðin lítil eftir að Belgía skoraði þriðja markið á 50. mínútu en snemma í síðari hálfleik. Belgarnir spiluðu úr hornspyrnu. Kevin DeBruyne fékk boltann fyrir utan teig og kom boltanum á milli fóta Arnórs og til Dries Mertens sem var í teignum, aðeins vinstra megin. Hann lék á Guðlaug Victor og náði skoti með hægri fæti í nærhornið.
DeBruyne sýndi þar skemmtilega takta og hann lék í 80 mínútur í kvöld. Virkaði frekar þungur í fyrri hálfleik en var Íslendingum erfiður í síðari hálfleik.
Michy Batshuayi skoraði fjórða markið á 69. mínútu á snyrtilegan hátt. Fékk boltann frá vinstri og sendi hann í fjærhornið með hælnum. Batshuayi skoraði einnig tvö mörk síðast þegar þjóðirnar mættust fyrir tæpum tveimur árum síðan. Var það einnig í Þjóðadeildinni og einni í Brussel.
Hinn 18 ára gamli Jeremy Doku innsiglaði sigurinn á 79. mínútu. Fór inn í teiginn vinstra megin. Fékk tíma til að leggja boltann á hægri fótinn og skoraði með góðu og föstu skoti upp í fjærhornið.
Þrátt fyrir að Ísland hafi byrjað leikinn vel og staðan hafi einungis verið 2:1 að loknum fyrri hálfleik þá höfðu Belgar yfirburði á heildina litið. Ekki er það neitt sem þarf að koma á óvart. Belgar unnu tólfta leik sinn í röð og þeir hafa ekki tapað 27 síðustu mótsleikjum á heimavelli.
Til marks um yfirburðina þá átti Belgía 19 skot í leiknum og 14 þeirra rötuðu á markið. Ögmundur Kristinsson sem fékk tækifæri í markinu hafði því nóg að gera en þetta var fyrsti leikur hans í byrjunarliði eftir að Erik Hamrén tók við liðinu. Ögmundur varði oft vel frá Belgunum og tapið verður ekki skrifað á hans reikning.
Langbesta færi Íslands í leiknum kom eftir aðeins fimm mínútna leik. Birkir Bjarnason átti þá virkilega góða fyrirgjöf frá vinstri en Hólmbert skallaði yfir markið á markteig. Þar átti Hólmbert að gera betur en boltinn rétt sigldi yfir miðvörð Belga sem var fyrir framan Hólmbert og sennilega bjóst Hólmbert ekki við því að sendingin næði til hans.
Andri Fannar Baldursson fékk tækifæri á miðjunni og þessi 18 ára gamli leikmaður Bologna lék þar með sinn fyrsta A-landsleik. Arnór Sigurðsson sem var varamaður gegn Englandi var nú í byrjunarliðinu og sýndi ágæta takta nokkrum sinnum þegar hann fékk boltann. Íslendingar voru hins vegar ekki ýkja mikið með boltann að þessu sinni en þó mun meira í fyrri hálfleik en í þeim síðari.