Yfirburðir Belga í Brussel

Belg­ía vann ör­ugg­an 5:1 sig­ur gegn Íslandi í ann­arri um­ferð 2. riðils A-deild­ar­inn­ar í Þjóðadeild UEFA í fót­bolta á Stade Roi Baudou­in leik­vang­in­um í Brus­sel í kvöld. Staðan að lokn­um fyrri hálfleik var 2:1. 

Belg­ar unnu Dani 2:0 í Kaup­manna­höfn í fyrstu um­ferðinni á laug­ar­dag­inn en Íslend­ing­ar töpuðu 0:1 fyr­ir Eng­lend­ing­um, á drama­tísk­an hátt á Laug­ar­dals­vell­in­um.

Ísland komst yfir í leikn­um þegar Hólm­bert Aron Friðjóns­son skoraði strax á 10. mín­útu og þar með sitt annað mark fyr­ir A-landsliðið. Hólm­bert fékk bolt­ann frá Birki. Hólm­bert var við víta­teigs­bog­ann og lét vaða með vinstri fæt­in­um. Denayer reyndi að kom­ast fyr­ir skotið og við það skrúfaðist bolt­inn upp í loftið, sveif yfir Ca­steels í mark­inu og í slána og inn.

Íslend­ing­ar höfðu hins veg­ar ekki for­yst­una lengi því Axel Wit­sel jafnaði á 13. mín­útu. Náði frá­kast­inu og skoraði af stuttu færi eft­ir að Ögmund­ur varði gott skot frá Mertens úr auka­spyrnu. 

Skammt var stórra högga á milli því Mic­hy Bars­huayi kom Belg­íu yfir á 17. mín­útu. Fylgdi á eft­ir og skoraði af stuttu færi eft­ir að Ögmund­ur varði skot frá Wit­sel. 

Var staðan 2:1 að lokn­um fyrri hálfleik og ágæt frammistaða hjá væng­brotnuðu liði Íslands. 

Von­in um að Íslend­ing­ar gætu haldið spennu í leikn­um gegn efsta liði heimslist­ans var orðin lít­il eft­ir að Belg­ía skoraði þriðja markið á 50. mín­útu en snemma í síðari hálfleik. Belgarn­ir spiluðu úr horn­spyrnu. Kevin DeBruyne fékk bolt­ann fyr­ir utan teig og kom bolt­an­um á milli fóta Arn­órs og til Dries Mertens sem var í teign­um, aðeins vinstra meg­in. Hann lék á Guðlaug Victor og náði skoti með hægri fæti í nær­hornið.

DeBruyne sýndi þar skemmti­lega takta og hann lék í 80 mín­út­ur í kvöld. Virkaði frek­ar þung­ur í fyrri hálfleik en var Íslend­ing­um erfiður í síðari hálfleik. 

Mic­hy Bats­huayi skoraði fjórða markið á 69. mín­útu á snyrti­leg­an hátt.  Fékk bolt­ann frá vinstri og sendi hann í fjær­hornið með hæln­um. Bats­huayi skoraði einnig tvö mörk síðast þegar þjóðirn­ar mætt­ust fyr­ir tæp­um tveim­ur árum síðan. Var það einnig í Þjóðadeild­inni og einni í Brus­sel. 

Hinn 18 ára gamli Jeremy Doku inn­siglaði sig­ur­inn á 79. mín­útu. Fór inn í teig­inn vinstra meg­in. Fékk tíma til að leggja bolt­ann á hægri fót­inn og skoraði með góðu og föstu skoti upp í fjær­hornið.

Nítj­án skottilraun­ir

Þrátt fyr­ir að Ísland hafi byrjað leik­inn vel og staðan hafi ein­ung­is verið 2:1 að lokn­um fyrri hálfleik þá höfðu Belg­ar yf­ir­burði á heild­ina litið. Ekki er það neitt sem þarf að koma á óvart. Belg­ar unnu tólfta leik sinn í röð og þeir hafa ekki tapað 27 síðustu móts­leikj­um á heima­velli.  

Til marks um yf­ir­burðina þá átti Belg­ía 19 skot í leikn­um og 14 þeirra rötuðu á markið. Ögmund­ur Krist­ins­son sem fékk tæki­færi í mark­inu hafði því nóg að gera en þetta var fyrsti leik­ur hans í byrj­un­arliði eft­ir að Erik Hamrén tók við liðinu. Ögmund­ur varði oft vel frá Belg­un­um og tapið verður ekki skrifað á hans reikn­ing. 

Lang­besta færi Íslands í leikn­um kom eft­ir aðeins fimm mín­útna leik. Birk­ir Bjarna­son átti þá virki­lega góða fyr­ir­gjöf frá vinstri en Hólm­bert skallaði yfir markið á markteig. Þar átti Hólm­bert að gera bet­ur en bolt­inn rétt sigldi yfir miðvörð Belga sem var fyr­ir fram­an Hólm­bert og senni­lega bjóst Hólm­bert ekki við því að send­ing­in næði til hans. 

Andri Fann­ar Bald­urs­son fékk tæki­færi á miðjunni og þessi 18 ára gamli leikmaður Bologna lék þar með sinn fyrsta A-lands­leik. Arn­ór Sig­urðsson sem var varamaður gegn Englandi var nú í byrj­un­arliðinu og sýndi ágæta takta nokkr­um sinn­um þegar hann fékk bolt­ann. Íslend­ing­ar voru hins veg­ar ekki ýkja mikið með bolt­ann að þessu sinni en þó mun meira í fyrri hálfleik en í þeim síðari. 

Belg­ía 5:1 Ísland opna loka
skorar Axel Witsel (13. mín.)
skorar Michy Batshuayi (17. mín.)
skorar Dries Mertens (50. mín.)
skorar Michy Batshuayi (69. mín.)
skorar Jérémy Doku (79. mín.)
Mörk
skorar Hólmbert Aron Friðjónsson (10. mín.)
mín.
90 Leik lokið
Stórsigur Belga er staðreynd.
90
Þremur mínútum er bætt við leiktímann.
89 Belgía fær hornspyrnu
82 Hans Vanaken (Belgía) á skot sem er varið
Skot utan teigs en Ögmundur vel staðsettur
81 Dries Mertens (Belgía) á skot framhjá
Fast skot rétt utan teigs eftir klaufalega sendingu Victors.
80 Hans Vanaken (Belgía) kemur inn á
80 Kevin De Bruyne (Belgía) fer af velli
79 MARK! Jérémy Doku (Belgía) skorar
5:1 18 ára gamli leikmaðurinn sem átt hefur erfitt uppdráttar nær að skora laglegt mark. Fór inn í teiginn vinstra megin. Fékk tíma til að leggja boltann á hægri fótinn og skoraði með góðu og föstu skoti upp í fjærhornið.
77 Toby Alderweireld (Belgía) á skot framhjá
Skot með vinstri frá vítateig en skrúfaðist upp og fór yfir markið.
77 Belgía fær hornspyrnu
77 Dries Mertens (Belgía) á skot sem er varið
Skaut en Jón Guðni komst fyrir skotið.
75 Belgía fær hornspyrnu
72 Mikael Anderson (Ísland) kemur inn á
72 Arnór Sigurðsson (Ísland) fer af velli
70 Jón Daði Böðvarsson (Ísland) kemur inn á
70 Hólmbert Aron Friðjónsson (Ísland) fer af velli
69 MARK! Michy Batshuayi (Belgía) skorar
4:1 Þá er hann búinn að skora tvívegis rétt eins og þegar liðin mættust síðast í Belgíu. Snyrtilega afgreitt. Fékk boltann frá vinstri og sendi hann í fjærhornið með hælnum.
69 Belgía fær hornspyrnu
69 Yari Verschaeren (Belgía) á skot sem er varið
Skot af stuttu færi en Íslendingur komst fyrir.
67 Axel Witsel (Belgía) á skot sem er varið
Firnafast skot utan teigs en Ögmundur sá við honum.
67 Belgía fær hornspyrnu
Frá hægri.
66 Axel Witsel (Belgía) á skot sem er varið
Hættuleg sókn og Witsel skaut nokkurn veginn frá vítapunkti en beint á Ögmund.
65 Yari Verschaeren (Belgía) kemur inn á
65 Thorgan Hazard (Belgía) fer af velli
63 Ísland fær hornspyrnu
Frá hægri
62 Albert Guðmundsson (Ísland) á skot framhjá
Önnur fín sókn. Góður samleikur hjá Alberti og Arnóri og Albert fór upp að endalínu vinstra megin. Annað hvort skaut hann eða sendi fasta fyrirgjöf. Boltinn fór í það minnsta í gegnum markteiginn og hitti ekki á Íslending.
61 Albert Guðmundsson (Ísland) á skot sem er varið
Ágæt sókn hjá íslenska liðinu fram hægri kantinn. Albert fékk boltann á vítateigslínunni. Lék inn í teiginn vinstra megin og skaut með vinstri fæti en færið var orðið þröngt.
58 Dries Mertens (Belgía) á skot sem er varið
Fast skot en úr þröngu færi hægra megin í teignum.
55 Simon Mignolet (Belgía) kemur inn á
55 Koen Casteels (Belgía) fer af velli
Fékk högg þegar Jón Guðni stökk upp með honum.
54 Emil Hallfreðsson (Ísland) kemur inn á
18 ára aldursmunur á leikmönnunum í þessari skiptingu.
54 Andri Fannar Baldursson (Ísland) fer af velli
50 MARK! Dries Mertens (Belgía) skorar
3:1 Belgarnir spiluðu úr horninu. DeBruyne fékk boltann fyrir utan teig og kom boltanum á milli fóta Arnórs og til Mertens sem var í teignum, aðeins vinstra megin. Hann lék á Guðlaug Victor og náði skoti með hægri fæti í nærhornið.
50 Belgía fær hornspyrnu
50 Kevin De Bruyne (Belgía) á skot framhjá
Gott skotfæri rétt utan teigs. Skotið fór framhjá markinu en fór varnarmanni.
46 Seinni hálfleikur hafinn
45 Hálfleikur
Staðan er 2:1 að loknum fyrri hálfleik. Ekki slæm staða fyrir lið Íslands sem er án svo margra fastamanna. Spurning hvernig þetta þróast í síðari hálfleik en hætt er við því að það dragi af okkar mönnum þegar líður á.
44 Dries Mertens (Belgía) á skot sem er varið
Skemmtileg sókn hjá Belgum. Alderweireld fer upp að endalínu hægra megin og gaf fyrir. Mertens kom á ferðinni og reyndi að stýra boltanum í vinstra hornið en Ögmundur með gott viðbragð og varði.
41 Michy Batshuayi (Belgía) á skot framhjá
Fékk boltann á hægri kantinum. Lék inn í teiginn, lagði boltann á vinstri fótinn og skaut langt framhjá.
40
Belgía fær aukaspyrnu á vinstri kanti, skammt frá teignum.
34
Arnór er kominn aftur inn á.
33
Arnór þarf aðhlynningu. Fékk högg á innanvert hnéð. Væntanlega ekki alvarleg meiðsli til lengri tíma litið. En spurning hvort hann haldi leik áfram í dag.
30
Hálftími liðinn af leiknum sem hefur róast síðustu mínúturnar.
24 Arnór Sigurðsson (Ísland) á skot sem er varið
Eftir samleik við Birki lék Arnór að vítateignum. Skaut innanfótar skoti sem var ætlað að fara í hægra hornið en var ekki nógu utarlega og Casteels greip boltann.
19 Dries Mertens (Belgía) á skot framhjá
Dauðafæri. Casteels markvörður kýldi hornspyrnuna frá og Belgar fengu skyndisókn þrír á móti tveimur. De Bruyne fann Mertens hægra megin við sig. Hann keyrði inn í teiginn en skaut yfir markið.
19 Ísland fær hornspyrnu
Frá vinstri
18 Ísland fær hornspyrnu
Frá hægri
17 MARK! Michy Batshuayi (Belgía) skorar
2:1 Fylgdi á eftir og skoraði af stuttu færi. Íslensku varnarmennirnir vilja meina að hann hafi verið rangstæður þegar Witsel skaut.
17 Axel Witsel (Belgía) á skot sem er varið
Gott skotfæri rétt utan teigs. Skaut í hægra hornið en Ögmundur varði. Boltinn er laus...
13 MARK! Axel Witsel (Belgía) skorar
1:1 Náði frákastinu og kom boltanum inn fyrir marklínuna af stuttu færi. Jón Guðni gerði heiðarlega tilraun til að bjarga og skallaði frá en dómarinn og línuvörðurinn mátu stöðuna þannig að Jón Guðni hafi verið inni í markinu og að boltinn hafi farið allur inn fyrir línuna.
13 Dries Mertens (Belgía) á skot sem er varið
Mjög góð aukaspyrna sem stefndi efsta í vinstra hornið en Ögmundur varði virkilega vel. Boltinn er laus í teignum.
12
Belgar frá aukaspyrnu rétt utan teigs vinstra megin. Nánast við vítateigshornið vinstra megin.
10 MARK! Hólmbert Aron Friðjónsson (Ísland) skorar
0:1 Ísland tekur óvænt forystuna. Þetta var kostulegt mark. Hólmbert fékk boltann frá Birki. Hólmbert var við vítateigsbogann og lét vaða með vinstri fætinum. Denayer reyndi að komast fyrir skotið og við það skrúfaðist boltinn upp í loftið, sveif yfir Casteels í markinu og í slána og inn.
10
Belgarnir þreifa fyrir sér. Svolítið eins og þeir séu að vega og meta íslenska liðið. Nánast allt byrjunarlið íslenska liðsins síðustu árin er fjarverandi.
5 Hólmbert Aron Friðjónsson (Ísland) á skalla sem fer framhjá
Dauðafæri. Birkir Bjarna með frábæra fyrirgjöf frá vinstri sem sveif yfir miðvörð Belga og beint á Hólmbert sem skallaði yfir nánast frá markteig. Hólmberti til varnar þá var varnramaðurinn sem missti af boltanum rétt fyrir framan hann. Hefur kannski ekki búist við því að sendingin næði alla leið til hans. En færið hefði hann átt að nýta engu að síður.
5
Ágæt sending frá Hirti inn á teiginn en Belgar sáu við því.
3
Heimamenn eru með boltann á upphafsmínútunum. Ísland spilar 4-3-3 sem er meira eins og 4-5-1 þegar liðið bakkar.
1 Leikur hafinn
0
Batshuayi er í fremstu víglínu í dag en Íslendingar þurfa ekki að glíma við Lukaku sem er ekki í hópnum.
0
Ísland og Belgía mættust tvívegis í Þjóðadeildinni fyrir tæpum tveimur árum eða haustið 2018. Í Laugardalnum vann Belgía 3:0. Romelu Lukaku skoraði tvisvar og Edwn Hazard einu sinni. Í Belgíu vann Belgía 2:0 og skoraði Michy Batshuayi bæð mörkin.
0
Hólmbert fær nú tækifæri sem fremsta maður. Hefur ekki komið mikið við sögu hjá A-landsliðinu en fékk vítið gegn Englandi á dögunum. Hólmbert hefur skorað mörk í Noregi á tímabilinu og ekki er langt síðan hann gerði þrennu fyrir Aalesund.
0
Miðvarðaparið hjá Íslandi í dag, Hólmar og Jón Guðni, er miðvarðapar U21 árs landsliðsins sem lék í lokakeppni EM í Danmörku 2011.
0
Belgar hafa ekki tapað mótsleik á heimavelli síðan í undankeppni EM 2012. Þá tapaði Belgía fyrir Þýskalandi á heimavelli. Síðan þá hefur liðið spilað 26 mótsleiki á heimavelli.
0
Vinstri bakvörðurinn Ari Freyr Skúlason er fyrirliði íslenska liðsins í dag.
0
Nú er spurning hvort Ísland muni spila 4-3-3 eða 4-4-2. Ef Ísland er með þriggja manna framlínu þá eru Albert og Arnór væntanlega sitt hvoru megin við Hólmbert. Sé Ísland með tveggja manna framlínu eru það Albert og Hólmbert. Arnór yrði þá hægra megin á miðjunni (í stöðu Jóhanns Bergs) og Birkir Bjarna væntanlega vinstra megin þar sem hann hefur leikið ófáa landsleikina.
0
Mikil tímamót hjá miðverðinum Toby Alderweireld gegn Íslendingum í dag en hann leikur A-landsleik númer 100.
0
Belgar tefla einnig fram nýliða í dag og það í markvarðastöðunni. Koen Casteels leikur sinn fyrsta A-landsleik í dag en hann er markvörður Wolfsburg.
0
Andri Fannar Baldursson, hinn 18 ára gamli leikmaður Bologna, byrjar inn á og leikur sinn fyrsta A-landsleik.
0
Sjö breytingar eru á byrjunarliði Íslands frá því í leiknum á móti Englandi á laugardaginn.
0
Kevin De Bruyne er í byrjunarliði Belgíu í dag. Þeirra aðal stjarna ásamt Eden Hazard sem er varamaður á skýrslu en ekki var talið að hann yrði leikfær. Romelu Lukaku er ekki í leikmannahópnum.
0
Viðureign Belgíu og Íslands í A-deild Þjóðadeildar UEFA hefst í Brussel klukkan 18.45. Belgar eru með þrjú stig eftir sigur á Dönum, 2:0, á Parken á laugardaginn þar sem Jason Denayer og Dries Mertens skoruðu mörkin. Ísland er án stiga eftir 0:1 tap gegn Englandi þar sem Raheem Sterling skoraði úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Sjá meira
Sjá allt

Belgía: (4-3-3) Mark: Koen Casteels (Simon Mignolet 55). Vörn: Thomas Meunier, Toby Alderweireld, Jason Denayer, Jan Vertonghen. Miðja: Kevin De Bruyne (Hans Vanaken 80), Axel Witsel, Thorgan Hazard (Yari Verschaeren 65). Sókn: Dries Mertens, Michy Batshuayi, Jérémy Doku.
Varamenn: Davy Roef (M), Simon Mignolet (M), Leander Dendoncker, Youri Tielemans, Landry Dimata, Eden Hazard, Hans Vanaken, Yari Verschaeren, Dennis Praet, Leandro Trossard, Timothy Castagne.

Ísland: (4-3-3) Mark: Ögmundur Kristinsson. Vörn: Hjörtur Hermannsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Jón Guðni Fjóluson, Ari Freyr Skúlason. Miðja: Guðlaugur Victor Pálsson, Andri Fannar Baldursson (Emil Hallfreðsson 54), Birkir Bjarnason. Sókn: Arnór Sigurðsson (Mikael Anderson 72), Hólmbert Aron Friðjónsson (Jón Daði Böðvarsson 70), Albert Guðmundsson.
Varamenn: Patrik Sigurður Gunnarsson (M), Rúnar Alex Rúnarsson (M), Samúel Kári Friðjónsson, Alfons Sampsted, Jón Dagur Þorsteinsson, Mikael Anderson, Hörður Björgvin Magnússon, Emil Hallfreðsson, Arnór Ingvi Traustason, Jón Daði Böðvarsson.

Skot: Belgía 19 (14) - Ísland 5 (3)
Horn: Ísland 3 - Belgía 6.

Lýsandi: Kristján Jónsson
Völlur: Stade Roi Baudouin, Brussel

Leikur hefst
8. sept. 2020 18:45

Aðstæður:

Dómari: Pawel Raczkowski, Póllandi
Aðstoðardómarar: Radoslaw Siejka og Adam Kupsik, Póllandi

mbl.is

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
04.04 16:45 Ísland : Noregur
04.04 19:00 Sviss : Frakkland
08.04 16:45 Ísland : Sviss
08.04 18:00 Noregur : Frakkland
30.05 18:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
03.06 18:00 Ísland : Frakkland
03.06 18:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
04.04 16:45 Ísland : Noregur
04.04 19:00 Sviss : Frakkland
08.04 16:45 Ísland : Sviss
08.04 18:00 Noregur : Frakkland
30.05 18:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
03.06 18:00 Ísland : Frakkland
03.06 18:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert