KR í undanúrslit

KR-ingar fagna Atla Sigurjónssyni eftir að hann kom þeim í …
KR-ingar fagna Atla Sigurjónssyni eftir að hann kom þeim í 2:0 með glæsimarki í lok fyrri hálfleiks. mbl.is/Eggert

Breiðablik og KR áttust við í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni karla í knattspyrnu á Kópavogsvellinum í kvöld og KR hafði betur í miklum markaleik. KR er því komið í undanúrslit keppninar en Breiðablik er úr leik. 

KR hafði yfir 2:0 að loknum fyrri hálfleik og sigraði 4:2. KR, ÍBV og FH eru komin í undanúrslitin en framlenging stendur yfir hjá Val og HK. 

Leikurinn var mjög opinn í fyrri hálfleik og Blikar voru síst verri. Þeir sóttu töluvert en KR-ingar fengu einnig ágæt færi. Mörk KR í fyrri hálfleik komu undir lok fyrri hálfleiks og gerbreyttu gangi mála. 

Ægir Jarl Jónasson skoraði fyrsta markið með föstum skalla eftir hornspyrnu á 41. mínútu. Atli Sigurjónsson bætti við öðru marki á 45. mínútu þegar leikmenn voru farnir að bíða eftir því að komast inn í búningsklefa. Damir skallaði frá vítateigslínunni. Atli tók boltann á kassann utan teigs, lét hann skoppa einu sinni og hamraði efsta í vinstra hornið. Glæsilega gert hjá Atla. 

Blikar vildu vafalaust hleypa leiknum upp með því að minnka muninn snemma í síðari hálfleik en það fór á hinn veginn því KR skoraði þriðja markið á 52. mínútu. Aftur var Ægir Jarl á ferðinni og minnti heldur betur á sig í kvöld. Fékk tíma til að hlaða í skot utan teigs og skoraði með hnitmiðuðu skoti neðst í vinstra hornið. Mjög vel gert hjá Ægi. 

Á 65. mínútu var Ægir nærri því að ná þrennunni og skallaði þá í innanverða stöngina eftir hornspyrnu.

Úrslitin virtust ráðin þar til á 69. mínútu þegar varamaðurinn Brynjólfur Willumsson minnkaði muninn fyrir Breiðablik eftir góða sókn. Höskuldur tók mjúklega á móti langri sendingu og náði fyrir vikið strax valdi á boltanum. Lagði hann til hliðar á Brynjólf sem kom á ferðinni og skoraði af öryggi úr miðjum vítateignum. 

Blikar tóku mikla áhættu í þeirri von um að skora fleiri mörk og jafna leikinn. KR-ingar nýttu sér það og Kristján Flóki Finnbogason skoraði eftir skyndisókn á 82. mínútu. Kristinn Jónsson og Alex Freyr Hilmarsson léku skemmtilega saman. Kristinn komst í gott færi en Anton varði. Kristján náði frákastinu og kom boltanum í netið. 

Tveimur mínútum síðar skoraði annar varamaður fyrir Blika. Stefán Ingi Sigurðarson snéri Finn Tómas skemmtilega af sér, lék inn í teiginn og afgreiddi boltann í netið. 

Breiðablik 2:4 KR opna loka
90. mín. Þremur mínútum er bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert