FH varð annað liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarsins, með því að sigra Stjörnuna, 3:0, í átta liða úrslitum keppninnar í Kaplakrika í dag.
ÍBV er einnig komið í undanúrslit en seinni tveir leikir átta liða úrslitanna fara fram í kvöld þegar Breiðablik mætir KR og Valur mætir HK.
FH-ingar náðu forystunni á 24. mínútu þegar Þórir Jóhann Helgason laumaði boltanum inní miðjan vítateiginn á Steven Lennon. Skotinn virtist nálægt rangstöðu en afgreiddi boltann snyrtilega frá vítapunkti í vinstra hornið, 1:0.
Hilmar Árni Halldórsson var nærri því að jafna fyrir Stjörnuna á 36. mínútu þegar hann tók aukaspyrnu rétt utan vítateigs en átti hörkuskot í stöng.
Í staðinn komust FH-ingar í 2:0 með síðustu snertingu fyrri hálfleiks. Hörður Ingi Gunnarsson slapp inn í vítateiginn vinstra megin og renndi boltanum þvert inn í markteiginn þar sem Ólafur Karl Finsen sendi boltann í mark síns gamla félags.
Ólafur var nærri því að bæta við þriðja marki FH á 54. mínútu þegar hann skaut í stöng úr þröngu færi í markteignum, upp úr aukaspyrnu.
En á 57. mínútu komst FH í 3:0 þegar Þórir Jóhann Helgason skoraði beint úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs, nokkuð til hægri. Hann skaut í gegnum gat sem myndaðist í veggnum hægra megin og í markhornið nær.
FH-ingar misstu Jónatan Inga Jónsson meiddan af velli eftir um 70 mínútna leik og hann var fluttur brott í sjúkrabíl. Ekki var ljóst á þeirri stundu um hvernig meiðsli væri að ræða.
Eftir það gerðist fátt þar til í uppbótartímanum þegar Baldur Logi Guðlaugsson slapp einn upp að marki Stjörnunnar en Haraldur Björnsson varði vel frá honum og kom í veg fyrir að um fjögurra marka sigur yrði að ræða.