Valur varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta eftir 2:1-sigur á HK í framlengdum leik á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld. Sigurður Egill Lárusson skoraði sigurmarkið.
Valsmenn voru mun sterkari framan af og voru aðeins sex mínútur liðnar á klukkunni þegar Kaj Leo í Bartalsstovu skoraði fyrst mark leiksins með skoti úr teignum eftir undirbúning Valgeirs Lunddals Friðrikssonar.
Valur var áfram töluvert sterkari aðilinn næstu mínútur og komust HK-ingar lítið yfir miðju fyrsta hálftímann. HK sótti í sig veðrið undir lok hálfleiksins og komst í fínar stöður, en mörkin urðu ekki fleiri í seinni hálfleik.
Mikið jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik og skiptust þau á að skapa sér fín færi. Voru HK-ingar fyrri til að nýta eitt slíkt þegar varamaðurinn Ásgeir Marteinsson tók aukaspyrnu og setti boltann beint á annan varamann, Bjarna Gunnarsson, sem skoraði með fallegum flugskalla. Reyndist það síðasta markið í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja.
Valsmenn voru kraftmiklir í byrjun framlengingarinnar og sköpuðu fín færi. Eitt þeirra skilaði marki á 102. mínútu þegar Birkir Már Sævarsson skallaði boltann áfram eftir langan bolta fram, beint á Sigurð Egil sem slapp inn fyrir vörn HK og skoraði undir Arnar Frey Ólafsson í marki HK.
HK-ingar reyndu hvað þeir gátu og fengu færi til að jafna metin. Það besta fékk Bjarni Gunnarsson þegar hann slapp einn í gegn á þriðju mínútu uppbótartímans í seinni hálfleik framlengingarinnar en framherjinn setti boltann framhjá og Valsmenn fögnuðu að lokum.