Hólmfríður Magnúsdóttir átti þátt í öllum fimm mörkum Selfoss þegar liðið vann 5:0-sigur gegn KR í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Meistaravöllum í Vesturbæ í 14. umferð deildarinnar í dag.
Leiknum lauk með 5:0-sigri KR en Hólmfríður skoraði tvö mörk í leiknum, átti tvær stoðsendingar og átti svo stóran þátt í fjórða marki liðsins.
Selfoss komst yfir strax á 12. mínútu þegar Hólmfríður Magnúsdóttir fékk langa sendingu fram völlinn. Hólmfríður tók vel á móti boltanum, fór fram hjá Ingibjörgu Valgeirsdóttur í marki KR og skoraði í tómt markið.
Hólmfríður bætti við öðru marki Selfyssinga átta mínútum síðar eftir hornspyrnu frá hægri en hún stökk þá hæst í teignum, skallaði í átt að marki, og boltinn lak í netið fram hjá tveimur varnarmönnum KR en fór af Tiffany McCarty sem fær markið skráð á sig.
McCarty bætti við þriðja marki Selfoss undir lok fyrri hálfleiks þegar Hólmfríður sendi hana í gegn með laglegri stungusendngu. Tiffany gerði engin mistök og skoraði snyrtilega fram hjá Ingibjörgu og staðan því 3:0 í hálfleik.
Clara Sigurðardóttir bætti við fjórða marki Selfyssinga í upphafi síðari hálfleiks af stuttu færi úr teignum eftir frábæra fyrirgjöf Magdalenu Önnu Reimus frá hægri.
Hólmfríður Magnúsdóttir innsiglaði sigur Selfyssinga með marki á 80. mínútu með skalla eftir hornspyrnu og þar við sat.
Selfoss fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar í 19 stig og er nú með jafn mörg stig og Fylkir.
KR er sem fyrr á botni deildarinnar með 10 stig, þremur stigum frá öruggu sæti, en liðið á tvo leiki til góða, á Þrótt, FH og Þór/KA sem eru í næstu sætum fyrir ofan.
Selfyssingar gerðu út um leikinn á fyrstu tuttugu mínútunum. Það má hins vegar ekki gefa liðinu of mikið kredit fyrir þennan sigur enda mótspyrnan sama og engin í dag.
Sigurinn var einnig mikilvægur þar sem liðið hafði tapað síðustu tveimur deildarleikjum sínum, gegn Val og Stjörnunni, og því var kominn tími á sigur á Selfossi.
Hólmfríður Magnúsdóttir var besti leikmaður vallarins í dag gegn sínum gömlu félögum. Skoraði tvívegis, lagði upp annað og þriðja markið og átti stóran þátt í því fjórða líka.
Selfoss hefur verið í vandræðum með liðin sem þær eiga að vinna í sumar og því kemur þessi sigur á mjög góðum tíma fyrir liðið.
KR-ingar byrjuðu leikinn illa og það kann aldrei góðri lukku að stýra að lenda 2:0 undir eftir tuttugu mínútna leik. Varnarleikur liðsins var eins slakur og þeir verða og algjörlega óboðlegur hjá liði í efstu deild með alla þessa reynslu innanborðs.
Þá fékk liðið á sig tvö mörk eftir hornspyrnur þar sem Hólmfríður Magnúsdóttir fékk tvo fría skalla. Það var svo ekkert að frétta af sóknarleik liðsins í þokkabót. Hraðinn var lítill sem enginn og því var enginn til þess að stinga sér á bak við línuna. Þegar liðið fékk svo álitleg sóknartækifæri tóku leikmenn stöðugt rangar ákvarðanir.
Það virðist vera eitthvert agaleysi í Vesturbænum því liðið fór skelfilega með föstu leikatriðin sín sem drifu sjaldnast inn í vítateig Selfyssinga. KR er í alvörubasli og ef fram heldur sem horfir er ólíkegt að liðið rétt sleppi við fallið, fjórða árið í röð.