FH-ingar unnu 3:1 sigur á liði Breiðabliks í 16. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn fór fram í Kaplakrika.
Leikurinn var heldur tíðindalaus framan af og oft langir kaflar þar sem lítið var um að vera. Liðin spiluðu bæði frekar framarlega á vellinum en hvorugu þeirra tókst að skapa einhver efnileg tækifæri. Bæði lið áttu í miklum erfiðleikum með föst leikatriði. Langflestar aukaspyrnur sem Egill Arnar Sigurþórsson dómari leiksins dæmdi enduðu alveg eins: í varnarvegg hins liðsins.
Það sama var að segja um hornspyrnur sem lítil hætta skapaðist af, sama á hvort liðið er litið.
Það dró heldur betur til tíðinda á 34. mínútu þegar Steven Lennon skoraði fyrir FH-inga eftir mistök Damirs Muminovic í vörn Blika. Blikar áttu innkast, Björn Daníel Sverrisson vann boltann fyrir FH-inga og flikkaði boltanum inn á teig Blika. Damir missti boltann klaufalega yfir sig og það var auðvelt fyrir Lennon að koma boltanum í netið eftir það. Mínúturnar í aðdraganda marksins höfðu verið heldur dauflegar og lítið um að vera, en með markinu færðist aukið líf í bæði liðin.
Viktor Karl Einarsson náði að jafna metin fyrir Breiðablik skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Höskuldur Gunnlaugsson átti fínt hlaup upp hægri kantinn og sendi boltann síðan inn á Viktor sem var í miðjum vítateig FH-inga og kom boltanum snyrtilega í netið.
Það var því jafnt í hálfleik.
FH-ingar mættu af krafti í síðari hálfleik. Þeir voru líklegri til að skora framan af, en tókst þó ekki að skapa sér nein alvörutækifæri. Liðin skiptust á að sækja en hvorugt liðið náði þó að ógna hinu af nokkurri alvöru.
Á 77. mínútu skoraði Steven Lennon svo sitt annað mark þegar hann komst aleinn inn fyrir vörn Blika eftir fína sendingu þvert yfir völlinn frá Eggerti Gunnþóri Jónssyni. Lennon kláraði málið auðveldlega, eins og honum einum er lagið. Lennon fékk svo kjörið tækifæri til þess að fullkomna þrennuna þegar Davíð Ingvarsson missti boltann á hættulegum stað nærri vítateig Blika. Atli Guðnason, sem kom inn á sem varamaður, renndi boltanum fyrir Lennon sem var aleinn fyrir galopnu marki, en skotið fór rétt yfir markið.
Síðustu mínútur leiksins sóttu Blikar af krafti, en gæðin í sóknarleiknum voru einfaldlega ekki nógu mikil. Mikið var um misheppnaðar sendingar og þeim tókst ekki að nýta sér föst leikatriði.
Á 90. mínútu kláraði varamaðurinn Atli Guðnason svo leikinn fyrir FH þegar hann vann boltann á miðjum vallarhelmingi Blika. Anton Ari markmaður Breiðabliks var kominn mjög framarlega og átti misheppnaða sendingu sem Atli komst inn í. Hann skaut á markið, af á að giska 40 metra færi, og rataði boltinn í mark Breiðabliks.
Úrslit leiksins urðu því 3:1 sigur FH-inga sem verður að teljast sanngjarnt.
Bæði liðin eru nú jöfn að stigum með 23 stig í 3. og 4. sæti deildarinnar, en FH-ingar eiga þó leik til góða á Breiðablik.