Óskar jafnar leikjamet Birkis

Óskar Örn Hauksson er kominn með 321 leik, jafnmarga og …
Óskar Örn Hauksson er kominn með 321 leik, jafnmarga og Birkir Kristinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Örn Hauksson fyrirliði KR-inga jafnaði rétt í þessu leikjametið í úrvalsdeild karla í knattspyrnu þegar hann kom inn á sem varamaður hjá KR gegn Stjörnunni í viðureign liðanna á Meistaravöllum.

Óskar leikur í dag sinn 321. leik í deildinni, með KR og Grindavík, og hefur þar með náð Birki Kristinssyni fyrrverandi landsliðsmarkverði. Þetta er sautjánda tímabil Óskars í deildinni og hann hefur ekki misst úr leik með KR frá árinu 2015.

Birkir Kristinsson lék síðast með ÍBV árið 2006.
Birkir Kristinsson lék síðast með ÍBV árið 2006. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birkir lék 321 leik í marki KA, ÍA, Fram og ÍBV í deildinni á árunum 1984 til 2006 en Birkir hefur átt metið frá 7. júní 2004 þegar hann sló met Keflvíkingsins Gunnars Oddssonar með því að spila sinn 295. leik í deildinni. Birkir missti ekki úr leik í deildinni í ellefu ár í röð, frá 1985 til 1995. Síðasta leikinn lék hann 42 ára gamall gegn KR í Vesturbænum 24. ágúst 2006.

Gunnar er núna í fjórða sæti yfir þá leikjahæstu með 294 leiki því Gunnleifur Gunnleifsson markvörður fór fram úr honum á síðasta ári og er þriðji leikjahæstur með 304 leiki fyrir KR, Keflavík, HK, FH og Breiðablik en Gunnleifur hefur ekki spilað leik á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert