Óskar Örn Hauksson er orðinn leikjahæsti knattspyrnumaður efstu deildar karla hér á landi frá upphafi en hann er í liði KR sem var að hefja leik gegn Breiðabliki á Kópavogsvellinum.
Óskar leikur í kvöld sinn 322. leik í deildinni og slær með því met Birkis Kristinssonar sem hefur átt leikjametið frá 7. júní árið 2004 og lék sinn 321. og síðasta leik 42 ára gamall 24. ágúst árið 2006.
Óskar lék fyrst í deildinni með Grindvíkingum árið 2004 en fram að því hafði hann leikið með Njarðvíkingum og farið með þeim úr 3. deild og upp í 1. deild. Hann lék með Grindvíkingum í þrjú ár en gekk til liðs við KR fyrir tímabilið 2007 og hefur verið í Vesturbænum síðan.
Hann er bæði leikjahæsti og markahæsti leikmaður KR í efstu deild frá upphafi og sló bæði metin á árinu 2019 þegar hann tók leikjametið af Þormóði Egilssyni og markametið af Ellerti B. Schram.
Leikjahæstir í deildinni frá upphafi eru eftirtaldir:
322 Óskar Örn Hauksson, KR og Grindavík
321 Birkir Kristinsson, ÍBV, Fram, ÍA og KA
304 Gunnleifur Gunnleifsson, Breiðablik, FH, HK, Keflavík og KR
294 Gunnar Oddsson, Keflavík, KR og Leiftur
285 Atli Guðnason, FH