Sögulegt afrek Tindastóls

Leikmenn Tindastóls fagna úrvalsdeildarsætinu í leikslok.
Leikmenn Tindastóls fagna úrvalsdeildarsætinu í leikslok. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Tindastóll leikur í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu á næstu leiktíð en þetta varð ljóst eftir 4:0-sigur liðsins gegn Völsungi í 1. deild kvenna, Lengjudeildinni, í frestuðum leik úr 9. umferð deildarinnar  á Húsavík í dag.

Bryndís Rut Haraldsdóttir kom Tindastóli yfir á 32. mínútu og Hugrún Pálsdóttir bætti öðru marki við á 54. mínútu af stuttu færi úr teignum. 

Rakel Sjöfn Stefánsdóttir bætti við þriðja markinu á 68. mínútu og það var svo hin bandaríska Murielle Tiernan sem innsiglaði sigur Tindastóls með marki á 78. mínútu. Hún hefur nú skorað 22 mörk í deildinni í ár.

Tindastóll fer með sigrinum upp í 40 stig og hefur nú 7 stiga forskot á Keflavík sem er í öðru sætinu og 11 stiga forskot á Hauka sem eru í þriðja sætinu.

Keflavík og Haukar eiga eftir að mætast tvisvar innbyrðis og því ljóst að bæði liðin geta ekki náð Sauðkrækingum að stigum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Tindastóll tryggir sér sæti í efstu deild í knattspyrnu en liðið var ansi nálægt því að fara upp um deild síðasta sumar þegar liðið hafnaði í þriðja sæti 1. deildarinnar með 37 stig, 2 stigum minna en FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert