Alls engin stefnubreyting hjá Blikum

Thomas Mikkelsen og Heiðar Ægisson eigast við á Kópavogsvellinum.
Thomas Mikkelsen og Heiðar Ægisson eigast við á Kópavogsvellinum. mbl.is/Árni Sæberg

„Við náðum þéttri 90 mínútna frammistöðu í dag og vorum hrikalega ánægðir með að það skili sér í þremur stigum,“ sagði Halldór Árnason, aðstoðarþjálfari Breiðabliks eftir 2:1 sigur liðsins á Stjörnunni í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Spurður hvort ekki hafi verið einstefnu að ræða í átt að marki Stjörnunnar í kvöld sagði Halldór:

„Jú að einhverju leyti, mér fannst við hafa mjög góð tök á leiknum og stýrðum honum klárlega með boltann. Mér sýndist Stjarnan spila þennan leik þannig að þeir ætluðu okkur að leyfa að hafa boltann og sækja hratt á okkur en ég var gríðarlega sáttur með það hvernig við unnum boltann aftur þegar við töpuðum honum. Þeir fengu fá færi á því að sækja hratt á okkur," sagði Halldór.

Halldór Árnason, lengst til hægri.
Halldór Árnason, lengst til hægri. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Breiðablik hóf leik með fjögurra manna varnarlínu í kvöld eftir að hafa spilað stærstan hluta mótsins það sem af er með þriggja manna línu. Halldór segir þó ekki mikinn mun á kerfunum.

„Það er stigsmunur á þessu. Davíð Ingvarsson, þótt honum sé stillt upp sem bakverði í fyrri hálfleik þá var hann mjög hátt uppi á vellinum og Damir aðeins neðar sem hægri bakvörður. 

Svo förum við í kerfi sem við höfum verið að spila, þurftum að gera breytingu vegna meiðsla Andra Rafns, en mér fannst bæði kerfi ganga vel. Í seinni hálfleik fannst mér þetta ganga vel og við náðum að teygja vel á Stjörnumönnum og halda bltanum vel. Breytingin gekk vel og að sama skapi fannst mér fyrri hálfleikur líka spilast vel,“ sagði Halldór sem segir ekki að um stefnubreytingu sé að ræða.

„Nei alls ekki. Þetta er leikkerfi sem við höfum spilað þónokkrum sinnum í sumar. Við spiluðum þetta í fyrstu þremur, fjórum leikjunum, og í vetur, og höfum aðeins svissað þarna á milli. Breytingin er svo sem ekki mikil. Þetta er kannski byrjunarstaða á öðrum kantmanni 20 metrum ofar eða neðar en í grunninn er hugmyndafræðin sú sama og ekki mikið dýpra en það í rauninni,“ sagði Halldór.

Breiðablik hefur 26 stig í 3. sæti deildarinnar og á fyrir höndum leik gegn Val á sunnudag.

„Sá leikur leggst mjög vel í mig. Þrátt fyrir ekkert frábæra stigasöfnum í þessum tveimur leikjum á undan þessum þá höfum við verið ánægðir með ýmislegt í leik okkar. Okkur hefur skort að vera aðeins skarpari fyrir framan markið, sem við vorum í dag, og aðeins sterkari að verjast í okkar vítateig, sem við vorum líka í dag. Við getum ekki verið annað en bjartsýnir fyrir Valsleikinn. Valsliðið er búið að spila hrikalega vel og hefur náð ansri góðri forystu í þessu móti en við mætum bara fullir sjálfstrausts og tilhlökkunar á Hlíðarenda," sagði Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert