Mary Vignola, leikmaður Þróttar úr Reykjavík, mun leika með Íslandsmeisturum Vals í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á næstu leiktíð en þetta staðfesti Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, í samtali við mbl.is í kvöld.
Vignola mun fylla skarðið sem Hallbera Guðný Gísladóttir skilur eftir sig en íslenska landsliðskonan er á leið í nám til Svíþjóðar eftir áramót og mun því að öllum líkindum ekkert spila með Valsliðinu næsta sumar.
Vignola, sem er 22 ára gömul, gekk til liðs við Þróttara frá Tennessee-háskólanum í Bandaríkjunum fyrir þetta tímabil en hún hefur slegið í gegn með liðinu í Pepsi Max-deildinni í sumar.
Þrátt fyrir að spila sem vinstri bakvörður hefur hún skorað þrjú mörk í tíu deildarleikjum með liðinu í sumar en hún hefur misst af fjórum deildarleikjum vegna meiðsla.
Þróttur, sem er nýliði í efstu deild, er í harðri fallbaráttu en liðið er í áttunda sæti deildarinnar með 12 stig, líkt og FH, eftir fjórtán spilaða leiki.